Á vef ASÍ segir að Húsnæðiskreppan hafi verið til umræðu á kosningafundi Alþýðusambands Íslands og BSRB sem fram fór sl. mánudag.
Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, telur varahugavert að gera breytingar á byggingarreglugerðum þar sem þær séu vörn fyrir almenning gegn gróðaöflunum.
Svandís lét þessi orð falla á kosningafundi ASÍ og BSRB sem fram fór í Reykjavík á mánudag. Á fundinum, sem fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem bjóða fram í öllum kjördæmum sátu, var m.a. til umræðu hvernig leysa megi þá djúpstæðu húsnæðiskreppu sem ríkir á höfuðborgarsvæðinu og víða á landsbyggðinni.
Á fundinum kom fram gagnrýni á sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og ekki síst Reykjavík fyrir að hafa ekki reynst fær um að bjóða fram lóðir undir íbúðarhúsnæði.
Á meðal þeirra úrræða sem nefnd voru á fundinum var einföldun á byggingarreglugerðum í því skyni að greiða fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis.
Nokkrir fulltrúar á fundinum vöruðu við því að einföldun reglugerða gæti fylgt áhætta. Í þeim hópi var m.a. Sanna Magdalena Mörtudóttir, fulltrúi Sósíalistaflokksins, sem sagði ljóst að hinn frjálsi markaður megnaði ekki að lina húsnæðiskreppuna og tryggja fólki gott og vel byggt húsnæði. Ríkisvaldið ætti að koma að byggingu íbúðarhúsnæðis.
Vandi sveitarfélaga
Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, tók undir þessi orð og beindi athygli að sveitarfélögunum sem þyrftu að vera fær um að sinna skyldum sínum m.a. hvað varðaði skipulagningu og lóðaframboð. Vandinn væri sá að mörg sveitarfélög væru smá og glímdu við erfiðleika í rekstri. Efla þyrfti sveitarstjórnarstigið. Húsnæðismálin ætti að nálgast sem grundvöllinn í lífi fólks. Húsnæði væri heimili. Þegar félagsleg samheldni brysti sæjust afleiðingarnar í húsnæðismálunum. Hina félagslega vídd húsnæðismálanna mætti ekki gleymast í tali um fermetra og steinsteypu.
Svandís sagði ríkið og fleiri aðila þurfa að koma að byggingu félagslegs húsnæðis. Ekki ætti að leyfa lélegt húsnæði með lítilli birtu og ófullnægjandi hljóðeinangrun. Húsbyggingar ættu ekki að vera stórkostlega ábatasamar. Tryggja þyrfti að nýbyggingar standist alla gæðastaðla. Ekki mætti gleyma því að byggingarreglugerðir væru vörn fyrir almenning gagnvart gróðaöflunum.