Á heimasíðu ASÍ segir að ný og uppfærð aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum taki fyrst og fremst mið af hagsmunum atvinnulífsins og leggi byrðar á almenning á Íslandi langt umfram ábyrgð hans á vandanum. Þetta er í samræmi við þá ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að vinna áætlun þessa án minnsta samráðs við fulltrúa launafólks.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í ítarlegri, sameiginlegri umsögn ASÍ, BSRB, BHM og Kennarasambands Ísland um áætlun þess sem lögð hefur verið fram í samráðsgátt stjórnvalda.
Í umsögninni er vakin athygli á að áherslur í áætluninni gangi þvert á á það megininntak allra sáttmála Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál að þeir sem valdi vandanum skuli bera kostnaðinn af mótvægisaðgerðum.
Í umsögninni segir: „Á meðan stjórnvöld bjóða atvinnugreinum upp á að móta sínar eigin aðgerðir og þær ívilnanir sem atvinnulífið telur sig þurfa á að halda til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er almenningur látinn bera þungann af fjármögnun loftslagsaðgerða. Þrátt fyrir að atvinnugreinar og fyrirtæki beri ábyrgð á 92% losunar gróðurhúsalofttegunda og íslensk heimili 8%, greiddu heimilin 60% af umhverfissköttum árið 2021 og atvinnulífið 38%.“
Þá segir ennfremur: „Í stað þess að fara að fordæmi annarra landa og skattleggja mengun fyrirtækja og tryggja þannig að þeir borgi sem menga og að fjárhagsleg byrði af loftslagsaðgerðum sé í samræmi við ábyrgð á vandanum og getu til að standa straum af kostnaði, láta íslensk stjórnvöld almenning bera þyngstu fjárhagslegu byrðarnar. Aðgerðaáætlun þessi er ekki til þess fallin að breyta þessari stöðu til betri vegar, nema síður sé. Allt útlit er fyrir að fjárhagsleg byrði almennings af loftslagsaðgerðum muni koma til með aukast enn frekar með hækkandi kolefnissköttum og fyrirhuguðum vegtollum. Afleiðing þessa er sú að almenningur heldur áfram að bera þyngstu byrðarnar af loftslagsvandanum.“
Heildarsamtökin segja aðgerðaáætlunina illa útfærða, mótsagnakennda og ekki líklega til að skila tilætluðum árangri.