Ársskýrsla Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins 2023 er komin út

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur gefið út ársskýrslu fyrir árið 2023. Þar er farið yfir árangurinn af starfinu yfir árið, helstu verkefni og samstarf.

"Mörg framfaramál í íslensku samfélagi hafa sprottið upp úr kjarasamningum. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) er þar gott dæmi, en frumkvæðið að stofnun hennar kom frá Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins í kjölfar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. FA var þar með falin ábyrgð á þróun verkfæra sem veita eiga fólki á vinnumarkaði, sem ekki hefur lokið formlegri menntun, tækifæri til að afla sér menntunar eða fá hæfni sína á vinnumarkaði metna og staðfesta, "  segir Maj-Britt Hjördís Briem, lögmaður á vinnumarkaðssviði hjá SA og stjórnarformaður Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, m.a. í nýrri ársskýrslu FA.

Ársskýrsla Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins 2023

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins er samstarfsvettvangur í fullorðins- og framhaldsfræðslu á íslenskum vinnumarkaði. Alþýðusambandið hefur ávallt lagt mikla áherslu á menntun og er einn eigenda FA, ásamt SA, BSRB, SÍS og Fjármála og efnahagsráðuneytinu. Megin hlutverk FA er veita þeim sem ekki hafa lokið námi frá framhaldsskóla tækifæri til að afla sér menntunar og styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Þar sem um er að ræða um fjórðung alls fólks á vinnumarkaði er ljóst að verkefnin eru bæði umfangsmikil og fjölbreytt.