Seðlabanki Íslands sendi nýlega frá sér samantekt úr ársreikningum lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar fyrir árið 2022. Þar kemur fram að lífeyriseignir landsmanna hafi lækkað um 87 ma.kr. á árinu og að eignir íslenska lífeyrissjóðakerfisins í formi samtryggingar lífeyrissjóða, séreignar lífeyrissjóða og séreignar annarra vörsluaðila séreignarsparnaður séu nú um 186% af vergri landsframleiðslu.
Hrein raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða var -11,6% að meðaltali á árinu og kom í kjölfar þriggja ára þar sem lífeyrissjóðir skiluðu raunávöxtun langt umfram viðmiðunarávöxtun skuldbindinga, sem er 3,5%. Hafa ber í huga að lífeyrissparnaður er langtímasparnaður og síðastliðin 10 ár hefur hrein raunávöxtun samtryggingardeilda lífeyrissjóða verið 4,7% að meðaltali.