Fimm ára endurskoðun starfsmatskerfisins SAMSTARFS hefur staðið yfir í nokkurn tíma. Starfsmatið er kerfi þar sem starfsmönnum sveitarfélaga eru ákvörðuð grunnlaun með eins málefnalegum og hlutlægum aðferðum og hægt er.
Í desember sl. tók Samband íslenskra sveitarfélaga einhliða ákvörðun um að senda drög að niðurstöðum starfsmats eftir endurskoðun til allra sveitarfélaga með þeim skilaboðum að taka mið af þeim frá 1. janúar 2024. Var þetta gert án vitneskju stéttarfélaganna og ekki var búið að ljúka vinnunni né samþykkja nýja matið af framkvæmdanefnd um starfsmatskerfið. Ágreiningur hefur verið um gildistíma nýja matsins og stéttarfélögin telja að það eigi að gilda frá 1. september 2021.
Fundur var haldinn í framkvæmdanefnd 15. desember sl. þar sem nýja matið var afgreitt að undanskildum störfum félagsliða á velferðarsviði og veitustörfum, en fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga sátu hjá við þá afgreiðslu. Það er andstætt vinnureglum starfsmatsins sem kveða á um samhljóða niðurstöðu. Vegna þessa var eftirfarandi bókað af hálfu fulltrúa stéttarfélaganna.
Bókun fulltrúa stéttarfélaga á fundi framkvæmdarnefndar um starfsmatskerfið SAMSTARF 15.12.2023
Fulltrúar stéttarfélaga í framkvæmdanefnd um starfsmatskerfið SAMSTARF gera alvarlegar athugasemdir við einhliða ákvörðun fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga um að birta drög að niðurstöðum starfsmats við 5 ára endurskoðun. Fulltrúar stéttarfélaganna líta svo á að um algjöran trúnaðarbrest sé að ræða. Vinna við endurskoðun hefur verið í gangi á vettvangi nefndarinnar sl. tvö ár. Með ákvörðuninni virtu fulltrúar Sambandsins algjörlega að vettugi starfsreglur framkvæmdanefndar starfsmats.
Í 7. gr. starfsreglnanna kemur fram að allar ákvarðanir nefndarinnar skuli vera samhljóma og séu fullnaðarákvarðanir. Í 10. gr. er fjallað um birtingu niðurstaðna starfsmats og er skýrt að það er hlutverk framkvæmdanefndar að samþykkja og birta niðurstöður starfsmatsins.
Vinnu við endurmat starfa starfsmats er ekki lokið og hefur framkvæmdanefnd ekki samþykkt út úr nefndinni þá niðurstöðu sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur nú tekið ákvörðun um að birta sveitarfélögunum.
Hingað til hefur ríkt algjör sátt um að fylgja starfsreglum starfsmatsins. Ákvörðun Sambandsins er fordæmalaus og með öllu óásættanleg. Þessi framganga Sambandsins stefnir áratuga samvinnu og samstöðu um starfsmatið í hættu.
Málinu er ekki lokið og munu stéttarfélögin halda til streitu kröfu sinni um gildistíma frá september 2021.