Miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum í dag 20 mars 2024:
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) harmar þá ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands að halda stýrivöxtum óbreyttum. Miðstjórn telur þessa ákvörðun skorta rökstuðning og varar við að svo hátt vaxtastig muni þrengja að heimilum og magna framboðsvanda á húsnæðismarkaði og sé þannig fallið til að viðhalda afleitu og óásættanlegu ástandi.
Peningastefnunefnd vísar í ákvörðun sinni til þess að verðbólguvæntingar séu yfir markmiði auk sem hagvöxtur á síðustu misserum hafi reynst meiri en fyrri tölur bentu til. Þetta segir peningastefnunefnd valda meiri spennu í þjóðarbúinu en áður hafi verið talið. Þá nefnir peningastefnunefnd launaskrið og mögulega aukna eftirspurn og verðbólguþrýsting vegna aðgerða í ríkisfjármálum. Á það skalt bent að telji ríkisvaldið nauðsynlegt að draga úr þensluáhrifum hefur það til þess margvísleg og sérhæfðari tól önnur en stýrivexti.
Miðstjórn spyr hvar þess sjáist merki að spenna eða þensla einkenni þjóðarbúið. Þvert á móti liggur fyrir að einkaneysla fer minnkandi og fjárfestingar dragast saman. Að auki liggur fyrir að vöxtur í ferðaþjónustu verður minni en spár hafa kveðið á um.
Miðstjórn ítrekar þau vonbrigði sem ákvörðun peningastefnunefndar veldur og lýsir yfir áhyggjum af neikvæðum áhrifum hennar til skemmri og lengri tíma. Miðstjórn minnir á að á almennum markaði hefur nú verið samið um mjög hóflegar launahækkanir sem eiga að stuðla að lækkun verðbólgu og skapa forsendur fyrir lækkun vaxta.
Samningar hafa nú verið samþykktir með mjög afgerandi hætti af félagsmönnum og fagnar miðstjórn þeim niðurstöðum. Hversu hratt verðbólga hjaðnar er nú í höndum fyrirtækja og sveitarfélaga sem bera ábyrgð á því að markmið samninga gangi eftir.
Verkalýðshreyfingin hafnar því að launafólk á almennum vinnumarkaði beri eitt ábyrgð á stöðugleika í hagkerfinu. Til að verkefnið gangi upp má enginn skorast undan ábyrgð. Hvorki fyrirtæki, stjórnvöld, stéttarfélög á opinberum markaði eða Seðlabanki Íslands.