Miðstjórn ASÍ harmar þá stefnu sem umræða um fólk á flótta hefur tekið undanfarna daga. Að stilla fólki á flótta upp sem byrði á íslensku samfélagi er ekki umræðunni til framdráttar og einungis til þess fallið að skapa sundrung og óvild gagnvart allra berskjölduðustu hópum samfélagsins.
Álag á innviði samfélagsins, á heilbrigðis- og skólakerfi, félagsþjónustu og ekki síst, húsnæðismarkað, er uppsafnaður vandi sem vel hefði mátt bregðast við fyrr. Stjórnmálafólk ber ábyrgð á að hér séu sterkir innviðir og það er grátlegt að ráðherrar í ríkisstjórn reyni að skorast undan þeirri ábyrgð með því að gera fólk á flótta að blóraböggli fyrir því neyðarástandi sem til dæmis ríkir á húsnæðismarkaði.
Ísland er hluti af alþjóðasamfélaginu og hefur um árabil notið góðs af framlagi aðflutts launafólks til samfélagsins. Innflytjendur hafa auðgað samfélagið og aukið velsæld, hér á landi eins og annars staðar.
Sem þátttakandi í alþjóðasamfélagi getur Ísland ekki skorast undan skyldum sínum gagnvart fólki á flótta.
Miðstjórn ASÍ hefur áður bent á mikilvægi þess að greiða götur umsækjenda um alþjóðlega vernd á löglegan vinnumarkað. Þá er nauðsynlegt að stytta verulega vinnslutíma umsókna um alþjóðlega vernd. Eins þarf að fjárfesta í inngildingarverkefnum sem styðja flóttafólk í að fá góð störf við hæfi. Miðstjórn ASÍ skorar á stjórnvöld að axla ábyrgð á því verkefni sínu að tryggja sterka innviði og
mannúðlegan húsnæðismarkað og forðast ómálefnalega umræðu um fólk á flótta, en slík umræða er hættuleg og ekki til þess fallin að skapa hér gott samfélag.
Sjá nánar