Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) kallar stjórnvöld til ábyrgðar vegna hrattvaxandi verðbólgu og neyðarástands á húsnæðismarkaði. Miðstjórn krefst þess að stjórnvöld grípi þegar í stað til aðgerða til að bæta stöðu þeirra samfélagshópa sem verst verða fyrir barðinu á áhrifum verðbólgunnar.
Verðbólga mælist nú 5,7% á ársgrundvelli og hefur ekki verið meiri í tæpan áratug. Margir þættir eru að verki; húsnæðisverð hefur aldrei verið hærra, innflutt vara og þjónusta hækkar sökum áhrifa COVID-veirufaraldursins og þjónustugjöld og álögur ríkis og sveitarfélaga hækka.
Miðstjórn ASÍ vekur athygli á því að hækkun verðbólgu kemur verst við láglaunafólk og þá hópa sem höllum fæti standa í samfélaginu; einstæða foreldra, leigjendur, ungt fólk, innflytjendur, öryrkja og hluta ellilífeyrisþega. Þeim fjölgar sem búa við sligandi húsnæðiskostnað vegna vaxtahækkana, áhrifa á verðtryggð lán og vísitölubundinna leigusamninga. Húsnæðiskostnaður þeirra sem búa í eigin húsnæði er hærri á Íslandi en í nokkru öðru Evrópulandi. Þessa stöðu má rekja til hagstjórnarmistaka stjórnvalda og niðurlagningar húsnæðisbótakerfisins í þeirri mynd sem það var.
Miðstjórn ASÍ krefst þess að ríkisstjórnin grípi til tafarlausra aðgerða til að milda höggið fyrir heimilin í landinu, þar á meðal að:
Samhliða ber bönkunum að draga úr arðsemiskröfu sinni og óhóflegum vaxtamuni til að minnka verðbólguþrýsting. Verslanir með nauðsynjavöru þurfa jafnframt eftir fremsta megni að halda að sér höndunum í verðhækkunum og fjárfestar, þar á meðal lífeyrissjóðir, þurfa að gæta hófsemi í arðsemisvæntingum.
Miðstjórn ASÍ krefst þess að stjórnvöld leggi fram aðgerðaáætlun og staðfesti þannig að margnefnd áform þeirra um stöðugleika séu ekki öðru fremur loforð um kyrrstöðu og verkleysi. Ef ekki verður gripið til aðgerða strax mun það leiða til ófremdarástands sem mun hafa rík áhrif á kjaraviðræður næstkomandi vetur.