Dagana 27. til 29. mars sl. stóðu IUF (alþjóðasamtök starfsfólks í matvælaiðnaði, landbúnaði og hótelum) fyrir alþjóðlegri ráðstefnu launafólks í fiskvinnslu og fiskeldi á Hótel Natura í Reykjavík. Starfsgreinasambandið á aðild að samtökunum og aðstoðaði við skipulagningu ráðstefnunnar. Gestir ráðstefnunnar komu víða að, m.a. frá ýmsum Evrópulöndum, Asíu, Kyrrahafsríkjum og Afríku.
Anna Júlíusdóttir, varaformaður félagsins, var einn gesta á þessari ráðstefnu, en tilgangur hennar var að sameina fólk sem starfar í fiskvinnslu og fiskeldi á heimsvísu, stuðla að frekari sjálfbærni og vinna að bættum aðstæðum launafólks í greinunum. Á ráðstefnunni hlýddu gestir á hin ýmsu fróðlegu erindi og unnu að stefnumótun fyrir samtökin. Þriðji og síðasti dagur ráðstefnunnar var svo helgaður heimsóknum í hin ýmsu fyrirtæki í Grindavík og nágrenni, m.a. Vísi hf., bleikjueldi Samherja, Stolt Sea Farm og Fisktækniskóla Íslands. Á meðfylgjandi myndum sem eru af heimasíðu SGS má sjá hópinn samankominn í starfsstöðvum Vísis í Grindavík.