Almenni markaðurinn - Ræstingarauki

Ákvæði um nýjan ræstingarauka, sem samið var um í kjarasamningum á almenna markaðnum í vor, tók gildi í byrjun ágúst. Þetta þýðir að ræstingarfólk sem starfar á almenna markaðinum átti í fyrsta sinn að fá sérstaka viðbótargreiðslu með launum fyrir ágúst og svo mánaðarlega eftir það.

Félagsmenn Einingar-Iðju sem starfa við ræstingar á almenna markaðinum eru því hvattir til að skoða vel launaseðilinn til að tryggja að þessi ræstingaruppbót skili sér. Upphæðin á að birtast sem sérstök lína á launaseðli og ætti því að vera auðvelt fyrir félagsmenn að sannreyna að þeir hafi fengið hann greiddan.

Ræstingaraukinn skal greiddur út mánaðarlega og reiknast hann í hlutfalli við starfshlutfall, en fyrir fullt starf er hann 19.500 kr. á mánuði. Hafa ber í huga að ræstingaraukinn er ekki hluti af grunnlaunum og myndar þar af leiðandi ekki stofn fyrir yfirvinnu og aðrar álagsgreiðslur. Í reiknivél SGS geta félagsmenn séð hvernig ræstingaraukinn sem og aðrar kjarasamningsbundar hækkanir í kjarasamningi SGS og SA koma til með að líta út miðað við sínar forsendur.