Almenni markaðurinn - færð þú lengra sumarfrí 2025?

Vert er að vekja aftur athygli á því að í kjarasamningi á almenna vinnumarkaðinum frá því í mars á þessu ári milli Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins voru orlofsréttindi félagsfólks aukin.

Félagið hefur orðið vart við að launagreiðendur eru ekki allir að átta sig á þessari breytingu og hvetjum við því félagsmenn á almenna markaðinum til að skoða vel sinn launaseðil og ef orlofsprósentan er ekki rétt þá skuluð þið tala við ykkar yfirmann eða heyra í félaginu.

Breytingin sem varð er eftirfarandi:

Frá og með 1. maí 2024 breyttist ávinnsla orlofs, þ.e. orlof sem kemur til töku á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2025. (s.s. vegna sumarfrís 2025).

  • Starfsmaður sem náð hefur 22 ára aldri og starfað hefur í 6 mánuði í sama fyrirtæki skal eiga rétt á orlofi í 25 daga og orlofslaunum sem nema 10,64%.
  • Starfsmaður sem unnið hefur í 5 ár í sama fyrirtæki á rétt á orlofi í 26 virka daga og orlofslaunum sem nema 11,11%.

Frá og með 1. maí 2025 breytist ávinnsla orlofs, þ.e. orlof sem kemur til töku á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2026. (S.s. vegna sumarfrís 2026)

  • Starfsmaður sem unnið hefur í 5 ár í sama fyrirtæki á rétt á orlofi í 28 virka daga og orlofslaunum sem nema 12,07%.

Eldri regla um starfsmenn sem starfað hafa í sama fyrirtæki í 10 ár gildir áfram. Viðkomandi starfsmaður á þá 30 daga orlofsrétt og 13,04% orlofslaun.

Félagsmenn! Kannið orlofsprósentuna.

Farið alltaf vel yfir launaseðilinn - Ykkar er ábyrgðin!

Nánar um orlof

Smellið á myndina hér fyrir neðan til að stækka hana