Félagsmenn athugið!
Nú er aftur hægt að bóka íbúðir Einingar-Iðju á Höfuðborgarsvæðinu, best er að gera það í gegnum Mínar síður félagsins.
Ákveðið var að loka bókunarkerfinu um stund á meðan var verið að skoða beiðni stjórnvalda vegna ástandsins í Grindavík.
Stjórnvöld leggja nú allt kapp á að skjóta skjólhúsi yfir Grindvíkinga, sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Um er að ræða stórt og flókið verkefni sem stéttarfélög landsins koma að með ýmsum hætti.
Eining-iðja ásamt Dorado og fleiri stéttarfélögum er þróunaraðili að félagsmannakerfinu Frímann sem inniheldur meðal annars orlofshúsakerfi sem nú er verið að nýta í að halda utan um skammtíma húsnæðislausnir. Samkomulag hefur náðst um að Eining-Iðja veiti tæknifólki Dorado svigrúm til að vinna fyrir Almannavarnir við úrlausn húsnæðisvanda Grindvíkinga.
Um miðjan nóvember leituðu stjórnvöld til stéttarfélaga með að lána orlofseignir til íbúa Grindavíkur sem þurftu að flýja heimili sín og ákvað stjórn félagsins að bjóða fram nýtt hús félagsins í Húsafelli. Því var lokað fyrir leigu á því fyrir félagsmenn, til að byrja með til 3. janúar nk.
Við vonum að félagsmenn sýni þessari aðgerð skilning og teljum afar mikilvægt að stéttarfélög og önnur félagasamtök sem geta leggi sitt af mörkum til að aðstoða íbúa Grindavíkur eins og frekast er unnt.
Hugur okkar allra er hjá Grindvíkingum.