Í byrjun mars verður aftur greitt úr Félagsmannasjóði til þeirra starfsmanna sveitarfélaga á félagssvæði Einingar-Iðju sem búnir eru að setja inn eða uppfæra bankaupplýsingar á mínum síðum félagsins. Auk starfsmanna sveitarfélaga fá einnig starfsmenn Heilsuverndar, Hólmasólar, Fjölsmiðjunar og Hamra, útilífsmiðstöðvar skáta greitt úr sjóðnum.
Í byrjun febrúar fengu 1.771 félagsmenn Einingar-Iðju greiddar rúmar 140,5 milljónir króna úr sjóðnum að þessu sinni. Þá vantaði því miður bankaupplýsingar hjá 112 félagsmönnum eða þá að þær voru rangt skráðar og á því eftir að greiða tæpar 3,5 milljónir úr sjóðnum. Eins og staðan er í dag þá vantar upplýsingar hjá 32 félagsmönnum. Hæsta einstaka upphæðin sem á eftir að greiða eru tæpar 197.000 krónur þannig að ef þú ert að vinna á þessum vinnustöðum en fékkst ekki greiðslu frá félaginu og ekki búinn að uppfæra þínar bankaupplýsingar þá hvetjum við þig til að fara inn á Mínar síður félagsins og skrá inn þessar upplýsingar sem og síma og netfang.
Hvað er Félagsmannasjóður?
Félagsmenn innan Starfsgreinasambandsins, þar á meðal Einingar-Iðju, sem starfa hjá sveitarfélögum fengu í samræmi við kjarasamninga frá árinu 2019 greitt 1,5% af launum sínum í Félagsmannasjóð. Í gildandi kjarasamningi aðildarfélaga SGS við sveitarfélögin var samið um að hækka Félagsmannasjóðinn um 0,7% frá 1. apríl 2024 og fór hann því úr 1,5% í 2,2%. Auk sveitarfélaga greiða í sjóðinn Hólmasól, Fjölsmiðjan og Hamrar, útilífsmiðstöð skáta. Heilsuvernd greiddi 1,5% í sjóðinn á síðasta ári en það ákvæði var tekið út í nýjum samningi við þá.