Af hverju fæ ég ekki borgað úr Félagsmannasjóði SGS?

Borið hefur á því að undanförnu að félagsmenn, sem ekki starfa hjá sveitarfélagi, hafa verið að hringja í félagið til að athuga af hverju viðkomandi fái ekki greitt úr Félagsmannasjóði SGS.

Málið er að félagsmenn aðildarfélaga SGS, þar á meðal Einingu-Iðju, sem starfa hjá sveitarfélögum fá í samræmi við síðustu kjarasamninga greitt 1,5% af launum sínum í Félagsmannasjóð SGS. Þá var stofnaður sérstakur Félagsmannasjóður með það markmið að stíga skref til jöfnunar lífeyrisréttinda milli starfsmanna sveitarfélaga innan ASÍ við starfsmenn sveitarfélaga sem eru í BSRB. Atvinnurekandi greiðir mánaðarlegt framlag í sjóðinn sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna og er úthlutað úr sjóðnum 1. febrúar ár hvert.

Fyrsta úthlutun fór fram 1. febrúar 2021, en hún var fyrir tímailið frá 1. febrúar til 31. desember 2020. 1. febrúar sl. var því greitt úr sjóðnum í annað sinn fyrir tímabilið 1. janúar til 31. desember 2021, samtals tæplega 200 milljónir króna til u.þ.b. 4.400 félagsmanna SGS. Greitt verður aftur úr sjóðnum 10. febrúar nk. 

Félagsmönnum sem starfa hjá sveitarfélögum og eiga eftir að sækja um í sjóðinn er bent á að fylla út þetta form. Fyrirspurnum varðandi greiðslur úr sjóðnum er hægt að koma á framfæri í tölvupósti á netfangið sgs@sgs.is