Af hverju fékk ég ekki borgað úr Félagsmannasjóði?

Borið hefur á því að félagsmenn, hvort sem þeir starfa hjá sveitarfélagi eða ekki, hafa verið að hringja í félagið til að athuga af hverju viðkomandi hafi ekki fengið greitt úr Félagsmannasjóði.

Félagsmenn sem starfa á almenna markaðinum eða ríki eiga ekki rétt á greiðslu úr Félagsmannasjóði. Einungis er um að ræða félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögum. Þeir fá í samræmi við síðustu kjarasamninga greitt 1,5% af launum sínum í Félagsmannasjóð. Auk sveitarfélaga greiða einnig í sjóðinn Heilsuvernd, Hólmasól, Fjölsmiðjan og Hamrar, útilífsmiðstöð skátar.

Forsenda þess að hægt sé að greiða úr sjóðnum er að Eining-Iðja hafi kennitölu, bankaupplýsingar, síma og netfang félagsmanna sem eiga rétt á að fá greiðslu úr sjóðnum. Því miður vantar slíkar upplýsingar hjá um 350 félagsmönnum sem eru starfsmenn sveitarfélaga. Starfsmenn félagsins eru að vinna í að fá þessar upplýsingar frá félagsmönnum en ekki eru allir með skráð símanúmer eða netföng og því er best ef viðkomandi félagsmaður fari sjálfur inn á Mínar síður félagsins og skrái inn þessar upplýsingar.

Skráðu þig inn á Mínar síður félagsins, með rafrænum skilríkjum, þar getur þú kannað hvort við séum með réttar upplýsingar um þig og lagfært ef þörf krefur. Ef þú kemst ekki inn á síðuna eða hefur einhverjar spurningar í sambandi við Félagsmannasjóðinn þá máttu endilega senda tölvupóst á rosfrid@ein.is

Hvað með eldri ár?
Hvað varðar greiðslur til starfsmanna sveitarfélaga sem bárust félagsmannasjóðnum fyrir yfirtöku félagsins í byrjun árins 2022 er vert að benda á að töluverð vinna er framundan við að gera upp við viðkomandi félagsmenn. Starfsgreinasambandið var áður með sjóðinn og þar er verið að vinna í uppgjöri á sjóðnum. Við komum til með að greiða út vegna áranna 2021 og 2020 þegar við höfum fengið þær upplýsingar. Eins og staðan er getum við því miður ekki svarað til um hvenær það verður. Beðist er velvirðingar á því. Þegar þeirri vinnu er lokið verður endanlega gert upp við félagsmenn.

Greitt verður aftur úr sjóðnum 15. febrúar og 2. mars til þeirra sem skila inn umbeðnum upplýsingum.

Í grein 13.8 í samningi SGS við sveitarfélögin er fjallað um Félagsmannasjóð, þar stendur m.a.:

  • Launagreiðandi greiðir mánaðarlega framlag í félagsmannasjóð sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna. Úthlutun úr sjóðnum skal fara fram 1. febrúar ár hvert samkvæmt stofnskrá sjóðsins.
  • Félagsmannasjóðurinn er stofnsettur vegna kröfu ASÍ félaga um jöfnun lífeyrisréttinda milli starfsmanna á almennum vinnumarkaði og opinberra.