Í gær fór fram á Illugastöðum aðalfundur orlofsbyggðarinnar Illugastaða. Þar fóru fram venjuleg aðalfundarstörf og flutti Björn Snæbjörnsson, formaður byggðarinnar, skýrslu stjórnar og fór yfir ársreikningana. Fram kom í máli Björns að þann 1. október nk. verða mikil tímamót á Illugastöðum en þá munu hjónin Jón og Hlíf láta af störfum eftir rúmlega 48 ára starf hjá byggðinni. „Það er í hugum margra að orlofsbyggðin á Illugastöðum séu Jón og Hlíf. Það er ekki hægt að koma því í orð hvað við erum þeim hjónum þakklát fyrir allt sem þau hafa gefið í þessa byggð. Verið vakandi og sofandi yfir öllu sem hefur verið að gerast og haft mikinn metnað að allt sé eins gott og hægt er. Við óskum þeim velfarnaðar í hinu eilífðar sumarfrí sem er framundan hjá þeim.“
Einnig kom fram hjá Birni að samningaviðræður væru í gangi við Þórólf Egilsson og konu hans Sigrúnu Kristbjörnsdóttur um að verða staðarhaldarar á Illugastöðum, en Þórólfur hefur starfað með Jóni síðastliðin þrjú ár.
Í lok skýrslu þakkaði Björn öllu því frábæra starfsfólki svæðisins fyrir góð störf á árinu og einnig húseigendum fyrir samstarfið. Stjórnarmönnum fyrir samheldnina og áhugann á að gera byggðina sem glæsilegasta. „Megi byggðinni farnast vel í framtíðinni og öllum sem þar munu starfa eða dvelja um lengri eða skemmri tíma.“
Eining-Iðja á 14 hús í byggðinni, en í byggðinni eru alls 31 hús.
Núverandi stjórn orlofsbyggðarinnar skipa: Björn Snæbjörnsson formaður frá Einingu-Iðju, Helgi Sveinbjörn Jóhannsson varaformaður frá FVSA, Sveinn Ingvason ritari frá Eflingu, Jóhann Rúnar Sigurðsson frá FMA og Anna Júlíusdóttir frá Einingu-Iðju. Varamenn í stjórn eru Þorkell Kolbeins frá AFLI starfsgreinafélagi og Ásgrímur Örn Hallgrímsson frá Einingu-Iðju.