Aðalfundur Einingar-Iðju stendur nú yfir

Rafrænn aðalfundur félagsins stendur nú yfir. Nú er Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, að flytj…
Rafrænn aðalfundur félagsins stendur nú yfir. Nú er Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, að flytja skýrslu stjórnar.

Rafrænn aðalfundur félagsins stendur nú yfir. Nú er Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, að flytja skýrslu stjórnar þar sem hann sagði m.a.: "Það að halda aðalfund félagsins á netinu hefði verið talið óhugsandi fyrir ári síðan. En nú erum við hér og það er óneitanlega ópersónulegra að hafa ykkur, ágætu félagar, á skjánum heldur en að hafa okkur öll saman í sal. Það þýðir samt ekkert að væla yfir því, svona er staðan í þessu Covid-ástandi. Veiruskömmin hefur hrjáð okkur allt starfsárið og það var alveg nýtt fyrir starfsfólk Einingar-Iðju að vinna bakvið luktar dyr. En tvo til þrjá mánuði á starfsárinu skiptum við okkur þó og unnum annan daginn heima og hinn á skrifstofunni. En nú sér vonandi fyrir endann á þessu fyrirkomulagi og ég vona að við getum brosað og horft til næsta starfsárs með væntingum um að samskipti verði persónulegri.

Við vitum öll að töluverð breyting hefur orðið í þjóðfélaginu. Staða margra félaga okkar, sérstaklega í ferðaþjónustunni, hefur versnað til mikilla muna. Fjöldi launþega á hótelum og veitingastöðum eru atvinnulausir og enn eru margir á hlutabótaleiðinni og öðrum þeim ráðstöfunum sem stjórnvöld hafa gripið til.  Vonandi batnar ástandið að einhverju leyti nú þegar sumarið gengur í garð og búið verður að lina tökin á boðum og bönnum. Með aðgerðum stjórnvalda, eins og t.d. að hækka atvinnuleysisbætur og ekki síður að lengja tímabil tekjutengdra bóta úr þremur í sex mánuði, hefur skellurinn orðið minni. Þau greiða fyrirtækjum hluta af uppsagnarfresti starfsfólks, og fyrirtæki fá nú ráðningarstyrki til að ráða fólk aftur. Ég held að sjaldan í sögu félagsins hafi jafn margir verið skráðir atvinnulausir og það er sorgleg staða. Atvinnuleysistryggingasjóður er næst hæsti greiðandi félagsgjalda árið 2020, það segir alla söguna. Ég held þó að samfélagið á Eyjafjarðarsvæðinu sé sterkara en margir aðrir landshlutar vegna samsetningar vinnumarkaðarins hér. Matvælaframleiðslan, opinbera þjónustan og byggingaframkvæmdir halda nokkurn veginn óbreyttri starfsemi. Eins og svo oft áður erum við ekki að sveiflast mikið til. Þó dimm ský séu enn á lofti sýnist mér að sólin sé að ná í gegn og þá líður okkur betur."