Aðalfundur Einingar-Iðju stendur nú yfir

Aðalfundur félagsins stendur nú yfir á Hótel KEA. Nú er Anna Júlíusdóttir, formaður félagsins, að flytja skýrslu stjórnar og fjallar þar um ýmislegt sem gerst hefur á starfsárinu. M.a. minntist hún á gervistéttarfélagið Virðingu og kjarasamning sem það gerði við Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT). Þessi samningur er ekki í nokkru samræmi við þá samninga sem eru í gildi í veitingageiranum og felur í sér verulegar skerðingar á launum og réttindum starfsfólks.

"Það hryggir mig mjög að vita að stór og rótgróin fyrirtæki hér í bæ eru að taka þátt í þessum leik. Þarna er ég að tala um Greifann og K6 en þar undir eru Bautinn, Rub23 og Sushi Corner.

Þrátt fyrir að dagvinnutaxti í þessum samningi sé lítillega hærri en í kjarasamningi við SA, þá eru launakjörin umtalsvert lakari fyrir þorra starfsfólks á veitingahúsamarkaði. Skýrist það af því að tíminn milli 17:00 og 20:00 telst einnig til dagvinnutíma og eru því greidd dagvinnulaun fyrir vinnu á þeim tíma. Í samningum við SA er hins vegar greitt álag á þessum tímum. Sömuleiðis er álagsprósenta fyrir kvöld- og helgarvinnu lægri en í samningum við SA.

Virðing er ekki raunverulegt stéttarfélag heldur svikamylla rekin af atvinnurekendum í þeim tilgangi að skerða laun og réttindi starfsfólks.

Samkeppniseftirlitið hefur hafið rannsókn á hugsanlegum samkeppnislagabrotum í tengslum við stofnun stéttarfélagsins Virðingar. Meint brot teljast alvarleg og geta varðað sektum eða fangelsi.

Við Íslendingar förum yfirleitt snemma út á vinnumarkaðinn og eru okkar ungmenni dugleg að sækja styrki í fræðslusjóði félaganna, eins og t.d. vegna bílprófs. Virðing er ekki með fræðslusjóð þar af leiðandi eiga þessi ungmenni ekki rétt á styrk.

Ég bið allt starfsfólk í veitingageiranum sem hefur verið sagt af atvinnurekanda að það eigi að starfa undir kjarasamningi Virðingar við atvinnurekendafélagið SVEIT eða þá að þau hafi verið færð yfir af atvinnurekanda að hafa samband við félagið án tafar. Tilgangur þess er að fá starfsfólk til að samþykkja lægri laun og verri kjör."

Ávarp Önnu má nálgast á aðalfundarvef félagsins

Næst mun Hermann Brynjarsson, frá endurskoðunarfyrirtækinu Enor ehf., fara yfir ársreikning Einingar-Iðju fyrir árið 2024.

Nánar verður sagt frá fundinum á heimasíðu félagsins næstu daga.