Aðalfundur Einingar-Iðju fór fram á hótel KEA á Akureyri í gær, þriðjudaginn 22. apríl. Á fundinum fór Anna formaður félagsins yfir skýrslu stjórnar, Hermann Brynjarsson, frá endurskoðunarfyrirtækinu Enor ehf., fór yfir ársreikningana og einnig voru kosnir fulltrúar Einingar-Iðju í fulltrúaráð Stapa lífeyrissjóðs. Þá voru teknar fyrir og samþykktar breytingar á reglugerð sjúkrasjóðs.
Í ræðu sinni fjallaði Anna m.a. um gervistéttarfélagið Virðingu og kjarasamning sem það gerði við Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT). Þessi samningur er ekki í nokkru samræmi við þá samninga sem eru í gildi í veitingageiranum og felur í sér verulegar skerðingar á launum og réttindum starfsfólks. "Það hryggir mig mjög að vita að stór og rótgróin fyrirtæki hér í bæ eru að taka þátt í þessum leik. Þarna er ég að tala um Greifann og K6 en þar undir eru Bautinn, Rub23 og Sushi Corner."
Þá ræddi hún einnig um málefni ræstingafólks en í síðustu kjarasamningum á almenna markaðinum vorið 2024 náðist sátt um að bæta kjör starfsfólks í ræstingum umtalsvert og umfram aðra hópa. "Frá því í haust hafa fjölmargir félagsmenn sem starfa við ræstingar leitað til okkar vegna launalækkunar. Þannig að kjör þeirra nú eru jafnvel lakari en fyrir gerð síðustu kjarasamninga.
Málið snýst um ákvæði í kjarasamningum sem kallast tímamæld ákvæðisvinna, en samkvæmt því er gert ráð fyrir að starfsfólkið klári tiltekin þrif innan ákveðinna tímamarka, nokkuð sem kallar yfirleitt á aukinn vinnuhraða. Fyrir það á að greiða 20% álag ofan á tímakaup.
Mörg ræstingarfyrirtæki hafa farið þá leið að breyta ráðningarfyrirkomulagi úr kerfi tímamældrar ákvæðisvinnu yfir í tímakaup, án þess að vinnufyrirkomulagi sé breytt. Þau dæmi sem komið hafa á borð verkalýðsfélaga sýna að starfsfólki er áfram gert að klára tiltekin þrif innan ákveðins tíma og ljóst að enn er unnið á auknum vinnuhraða, án þess að starfsfólk fái álagið greitt. Það er klárt kjarasamningsbrot.
Álag margra er ómanneskjulegt og sumum hótað uppsögn samþykkti það ekki lækkunina. Þarna erum við að tala um láglaunastörf þar sem konur eru í miklum meirihluta.
Mér finnst þetta ekki ríma mjög fallega inn í þá umræðu og stöðu sem er í þjóðfélaginu okkar í dag."
Sjálfkjörið í stjórn og trúnaðarráð
Sjálfkjörið var í stjórn og trúnaðarráð félagsins þar sem aðeins einn listi barst með tilnefningum. Í kjöri þetta árið var formaður og ritari til tveggja ára. Stjórn Einingar-Iðju skipa nú: Anna Júlíusdóttir formaður, Tryggvi Jóhannsson varaformaður, Gunnar Magnússon ritari og Pálmi Þorgeir Jóhannsson meðstjórnandi. Einnig svæðisfulltrúarnir þrír, þau Ólöf Margrét Ingimundardóttir, Róbert Þorsteinsson og Sigríður Jósepsdóttir, og formenn og varaformenn deildanna þriggja, þau Guðbjörg Helga Andrésdóttir, Ingvar Kristjánsson, Baldvin Hreinn Eiðsson, Bethsaida Rún Arnarsson, Ingibjörg María Ingvadóttir og Svavar Magnússon.