Aðalfundur Einingar-Iðju 2023 – skýrsla stjórnar og ársreikningur

"Nú er starfstíma mínum að ljúka, ég er að fara í langa fríið. Þann 1. maí nk. eru 41 ár síðan ég hóf störf hjá Verkalýðsfélaginu Einingu. Þetta hafa verið frábær ár og ef ég mætti velja hvort ég mundi fara aftur í þetta starf þá mundi ég segja já. Það er svo gefandi að umgangast ykkur kæru félagar og ekki síst að ná árangri í að þið náið réttindum ykkar og að allt sé eins og samningar segja til um."

Aðalfundur Einingar-Iðju var haldinn í Menningarhúsinu HOFI á Akureyri í gær, mánudaginn 24. apríl. Björn Snæbjörnsson lét af formennsku eftir 31 ár í formannsstólnum. Anna Júlíusdóttir, sem hefur verið varaformaður, er nýr formaður félagsins. Á fundinum fór Björn þáverandi formaður félagsins yfir skýrslu stjórnar, Hermann Brynjarsson, frá endurskoðunarfyrirtækinu Enor ehf., fór yfir ársreikningana og einnig voru kosnir 41 fulltrúi Einingar-Iðju í fulltrúaráð Stapa lífeyrissjóðs. 

Í ræðu sinni sagði Björn m.a. “Nú er starfstíma mínum að ljúka, ég er að fara í langa fríið. Þann 1. maí nk. eru 41 ár síðan ég hóf störf hjá Verkalýðsfélaginu Einingu. Þetta hafa verið frábær ár og ef ég mætti velja hvort ég mundi fara aftur í þetta starf þá mundi ég segja já. Það er svo gefandi að umgangast ykkur kæru félagar og ekki síst að ná árangri í að þið náið réttindum ykkar og að allt sé eins og samningar segja til um.
Oft hafa verið umbrotatímar og að vera formaður í stéttarfélagi er ekki eitthvað sem gerir mann vinsælan heldur er oft gremja yfir einhverju látin bitna á formanni í umræðunni. En ég vil minna þá sem taka við keflinu á að Eining-Iðja er stærsta félagið á landsbyggðinni og annað stærsta innan SGS og takið það sem ykkur ber, verið í forustu innan hreyfingarinnar þar hafið þið mestu möguleikanna á að hafa áhrif. Gefið aldrei eftir þó að ykkar persónulegi metnaður segi annað, hafið félagsmenn ykkar í huga. Það að vera í stafni tryggir að þið hafið áhrif og vinnið þannig best að hagsmunamálum ykkar kæru félagar.” 

Sjálfkjörið í stjórn og trúnaðarráð
Sjálfkjörið var í stjórn og trúnaðarráð félagsins þar sem aðeins einn listi barst með tilnefningum. Í kjöri þetta árið var formaður og ritari til tveggja ára og einn meðstjórnandi til eins árs. Stjórn Einingar-Iðju skipa nú: Anna Júlíusdóttir formaður, Gunnar Magnússon ritari og Pálmi Þorgeir Jóhannsson meðstjórnandi. Einnig svæðisfulltrúarnir þrír, þau Elín Kjartansdóttir, Róbert Þorsteinsson og Sigríður Jósepsdóttir, og formenn og varaformenn deildanna þriggja, þau Guðbjörg Helga Andrésdóttir, Ingvar Kristjánsson, Tryggvi Jóhannsson, Bethsaida Rún Arnarsson, Ingibjörg María Ingvadóttir og Svavar Magnússon. Tilkynnt var á fundinum að Tryggvi muni verða starfandi varaformaður næsta starfsárið.