Fjölmennur aðalfundur Einingar-Iðju var haldinn í Menningarhúsinu HOFI á Akureyri í gær, þriðjudaginn 12. apríl. Á fundinum var farið yfir ársreikninga félagsins og einnig voru kosnir 37 fulltrúar Einingar-Iðju á ársfund Stapa. Í skýrslu stjórnar fjallaði Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, m.a. um verkföllin í fyrra, félagafrelsi og mikilvægi þess að sýna samstöðu í verki þegar á þarf að halda. Hann fjallaði einnig um það sem áunnist hefur á sl. 100 árum eða svo, en í ár á ASÍ 100 ára afmæli og 110 ár eru liðin frá því fyrsta verkalýðsfélagið var stofnað í Eyjafirði. „Alltaf finnst manni það vera sömu málin sem eru á dagskrá ár eftir ár, að reyna að semja um mannsæmandi laun til að bæta kjörin og verja þau réttindi sem stéttarfélögin hafa náð. Það er raunar ótrúlegt að geta ekki, eftir þessi hundrað ár, sagt að við höfum náð takmarkinu! En ef við lítum til upphafsins, höfum við samt náð afar miklum árangri, en það verður aldrei einhver lokasigur, þetta er langhlaup, sem aldrei lýkur. Ég tel að menn séu ekki í raun að meta allt sem hefur áunnist. Það eru margir, sérstaklega yngra fólkið, sem hugsa ekki út í að þessi réttindi hafi ekki bara alltaf verið, gera sér ekki grein fyrir baráttunni sem réttindin hafa kostað í gegnum tíðina. Þeir sem hafa stöðu til þess að semja sjálfir um laun sín við vinnuveitandann eru margir hverjir neikvæðir út í stéttarfélögin og telja að ekkert sé með þau að gera, því þeir vilja túlka það svo að félögin séu ekkert að gera fyrir viðkomandi þó að kauphækkunin sé jafnvel sú sama og félagið hefur samið um. En af hverju eru menn með orlof, veikindarétt, sjúkrasjóði, lífeyrissjóði, samning um 40 stunda vinnuviku svo ég tali nú ekki um atvinnuleysisbætur ef menn missa vinnuna. Þetta er bara hluti af því sem hefur náðst í sameiginlegri baráttu á þessum 100 árum.
Í febrúar síðast liðnum voru 110 ár frá því að samfellt starf stéttarfélaga á Akureyri hófst með stofnun Verkamannafélags Akureyrar, sem nú er Eining-Iðja, en þau félög sem hafa sameinast eru alls 24 á öllu félagssvæðinu. Nú er verið að skrifa sögu þessarra félaga og það gerir Jón Hjaltason sagnfræðingur, með dyggri aðstoð starfsmanna Einingar-Iðju, þeirra Þorsteins E. Arnórssonar og Sigrúnar Lárusdóttur.“
Sjálfboðaliðar – ný ógn
Björn fjallaði einnig um sjálfboðaliða og að búið væri að ráða sérstakan eftirlitsfulltrúa til að sinna vinnustaðaeftirliti „En þótt stéttarfélögin eigi langa sögu og verkefnin í dag séu í mörgu lík því sem var í upphafi þá steðjar að ný ógn. Nú er til siðs að auglýsa eftir erlendum sjálfboðaliðum til vinnu og að þeir eigi að kynnast landinu og fá fæði og húsnæði fyrir vinnuna. Við höfum frétt af um 30 aðilum hér á Eyjafjarðarsvæðinu sem reyna að nýta sér þetta. Nú hefur komist á samstarf milli stéttarfélaga hér í Eyjafirði, Skagafirði og Húnavatnssýslum að ráða sérstakan verkefnisstjóra til að sinna eftirliti með þessum aðilum og fleirum, einnig að skoða vinnustaðaskilríki og koma upp um svarta vinnu, ásamt því að hafa augu og eyru opin fyrir mögulegu mansali. Þessi starfsmaður verður með starfsaðstöðu á skrifstofu Einingu-Iðju, hann mun líka vinna í samstarfi við opinbera aðila, svo sem skattinn, vinnumálastofnun og vinnueftirlitið. Ég fagna því að samstaða náðist um ráðninguna. Einn réttur ekkert svindl er kjörorðið okkar. Það er ekki hægt að leyfa mönnum að svindla á fólki, einnig er gott að opinberir aðilar komi að þessu verkefni af fullum þunga.“
Sjálfkjörið í stjórn og trúnaðarráð
Sjálfkjörið var í stjórn og trúnaðarráð félagsins þar sem aðeins einn listi barst með tilnefningum. Stjórn Einingar-Iðju skipa nú: Björn Snæbjörnsson formaður, Anna Júlíusdóttir varaformaður, Vilhelm Adolfsson ritari og síðan svæðisfulltrúarnir fimm, þau Guðrún Þorbjarnardóttir, Sigríður Þ. Jósepsdóttir, Hafdís Kristjánsdóttir, Margrét Jónsdóttir og Róbert Þorsteinsson, og formenn deildanna þriggja, þau Sigríður K. Bjarkadóttir, Ingvar Kristjánsson og Margrét H. Marvinsdóttir.