Í vikunni fóru fram aðalfundir Svæðisráða félagsins sem eru þrjú, Svæðisráð Hríseyjar og Dalvíkur, Svæðisráð Fjallabyggðar og Svæðisráð Grýtubakkahrepps. Svæðisfulltrúar sitja í aðalstjórn félagsins fyrir hönd síns svæðis og eru varamenn sjálfkjörnir í trúnaðarráð félagsins.
Á fundum ársins, sem allir voru túlkaðir yfir á pólsku, var m.a. farið almennt yfir félagið og hvað það getur gert fyrir sína félagsmenn en einnig var farið yfir stöðu kjaramála.
Á fundinum sem fram fór í Fjallabyggð þurfti einnig að kjósa svæðisfulltrúa og varamann hans til eins árs en Elín S. Kjartansdóttir og Anton Konráðsson sem gegndu embættunum höfðu óskað eftir því að stíga til hliðar. Elín var búin að vera svæðisfulltrúi frá því í janúar 2021 og var tilbúin til að taka að sér að vera varasvæðisfulltrúi.
Halldóra María Þormóðsdóttir bauð sig fram sem svæðisfulltrúi og Elín sem varasvæðisfulltrúi og voru þær sjálfkjörnar. Halldóra kemur því ný inn í aðalstjórn félagsins í stað Elínar.
Anna formaður Einingar-Iðju þakkaði Antoni, sem lét af störfum varasvæðisfulltrúa og þar með setu í trúnaðarráði, fyrir góð störf í þágu félagsins.