Í vikunni fóru fram aðalfundir Svæðisráða félagsins sem eru þrjú, Svæðisráð Hríseyjar og Dalvíkur, Svæðisráð Fjallabyggðar og Svæðisráð Grýtubakkahrepps. Svæðisfulltrúar sitja í aðalstjórn félagsins fyrir hönd síns svæðis og eru varamenn sjálfkjörnir í trúnaðarráð félagsins. Á fundum ársins, sem allir voru túlkaðir yfir á pólsku, fór fram kosning svæðisfulltrúa og varamanns hans til tveggja ára, kynnt var nýleg könnun sem Gallup gerði fyrir félagið og farið var yfir stöðu kjaramála.
Nánar má lesa um kosningar á hverju svæði fyrir sig hér fyrir neðan
Róbert Þorsteinsson mun áfram sitja sem svæðisfulltrúi Grýtubakkahrepps til næstu tveggja ára en hann var einn í kjöri. Guðlaug Sigríður Tryggvadóttir var einnig ein í kjöri og mun því sitja áfram sem varasvæðisfulltrúi til næstu tveggja ára.
Fyrir aðalfund svæðisráðs Hríseyjar og Dalvíkurbyggðar var ljóst að sitjandi svæðisfulltrúi, Guðrún J. Þorbjarnardóttir, gæfi ekki kost á sér aftur. Guðrún er búin að sitja sem svæðisfulltrúi í Hrísey frá árinu 2010 og sem svæðisfulltrúi Hríseyjar og Dalvíkurbyggðar frá því árið 2017. Björn formaður Einingar-Iðju þakkaði Guðrúnu fyrir góð störf í þágu félagsins.
Fyrrum varasvæðisfulltrúi svæðisins, Sigríður Þ. Jósepsdóttir, var kjörin svæðisfulltrúi, en hún bauð sig ein fram í embættið. Hún kemur jafnframt ný inn í stjórn félagsins, því svæðisfulltrúar Einingar-Iðju sitja í aðalstjórn fyrir hönd síns svæðis. Nýr varasvæðisfulltrúi var kjörin, Joanna Krystyna Przychodzen, hún var einnig ein í framboði.
Á aðalfundi svæðisráðs Fjallabyggðar var Elín Kjartansdóttir ein í framboði og var kjörin á ný sem svæðisfulltrúi í Fjallabyggð til næstu tveggja ára. Ljóst var að kjósa þyrfti nýjan varasvæðisfulltrúa því Þorvaldur Hreinsson var búinn að ákveða að hann gæfi ekki kost á sér aftur í embættið. Björn formaður Einingar-Iðju þakkaði Þorvaldi fyrir góð störf í þágu félagsins. Anton Konráðsson var kosinn nýr varasvæðisfulltrúi svæðisins, en hann var einn í kjöri.