Aðalfundir deilda félagsins fóru fram í gær

Góð mæting var á fundina sem tókust mjög vel. Í upphafi var sameiginleg dagskrá þar sem Sigríður Óla…
Góð mæting var á fundina sem tókust mjög vel. Í upphafi var sameiginleg dagskrá þar sem Sigríður Ólafsdóttir, Mannauðsstjóri hjá Mögnum, var með fyrirlestur um samskipti á vinnustað.

Aðalfundir starfsgreinadeilda Einingar-Iðju fóru fram í gær, miðvikudaginn 8. febrúar, á Hótel KEA á Akureyri. Góð mæting var á fundina sem tókust mjög vel. Í upphafi var sameiginleg dagskrá þar sem Sigríður Ólafsdóttir, Mannauðsstjóri hjá Mögnum, var með fyrirlestur um samskipti á vinnustað.

Að loknu mjög góðu erindi Sigríðar var boðið upp á veitingar og er fundarmenn höfðu gert sér þær að góðu héldu deildirnar þrjár; Opinbera deildin, Matvæla- og þjónustudeildin og Iðnaðar- og tækjadeildin, sinn aðalfund hver í sínum sal þar sem fram fóru venjuleg aðalfundarstörf. Í ár var kosið í öllum deildum til tveggja ára um embætti formanns, ritara og þriggja meðstjórnanda. Einnig var kosið um tvo meðstjórnendur til eins árs í Opinberu deildinni.

Matvæla og þjónustudeild
Í byrjun fundar flutti Tryggvi Jóhannsson, formaður deildarinnar, skýrslu stjórnar, og að því loknu var gengið til kosninga um stjórnarmenn deildarinnar. Á fundinum var kosið um fimm af níu stjórnarmönnum deildarinnar. Kosið var um formann, ritara og þrjá meðstjórnendur til tveggja ára. Gabríel Sólon Sonjuson meðstjórnandi færði sig um félag á tímabilinu og hætti því í stjórn, aðrir sem áttu að ganga úr stjórn voru Tryggvi Jóhannsson, Sigríður Jósepsdóttir, Anna Guðrún Ásgeirsdóttir og Steinþór Berg Lúthersson. 

Tryggvi gaf áfram kost á sér sem formaður. Sigríður gaf áfram kost á sér sem ritari. Hvað meðstjórnendur varðar þá gaf Anna Guðrún ekki kost á sér áfram og Gabríel hættur í félaginu. Steinþór Berg gaf kost á sér áfram sem meðstjórnandi. Sem nýir meðstjórnendur gáfu kost á sér Baldvin Hreinn Eiðson sem starfar í Kjarnafæði og Júlía Björk Kristmundsdóttir sem starfar í MS Akureyri. Engin mótframboð bárust og því var listinn sjálfkjörinn.

Fyrir í stjórn var Bethsaida Rún Arnarson varaformaður og meðstjórnendurnir Börkur Þór Björgvinsson, Elsa Hrönn Grey Auðunsdóttir og Sveinbjörn Kroyer Guðmundsson,.

Iðnaðar- og tækjadeild
Í byrjun fundar flutti Ingvar Kristjánsson, formaður deildarinnar,  skýrslu stjórnar, og að því loknu var gengið til kosninga um stjórnarmenn deildarinnar. Á fundinum var kosið um fimm af níu stjórnarmönnum deildarinnar. Kosið var um formann, ritara og þrjá meðstjórnendur til tveggja ára. Úr stjórn áttu að ganga Ingvar Kristjánsson formaður, Gunnar Magnússon ritari og meðstjórnendurnir Agnar Ingi Svansson, Arnar Kristjánsson og Stefán Gíslason.

Ingvar gaf aftur kost á sér sem formaður, Gunnar bauð sig aftur fram sem ritari og sem meðstjórnendur buðu sig aftur fram þeir Agnar og Stefán. Arnar bauð sig ekki fram á ný og bauð Ingólfur Ásmundsson sig fram sem nýr meðstjórnandi. Engin mótframboð bárust og var listinn því sjálfkjörinn.

Fyrir í stjórn voru Svavar Magnússon varaformaður og meðstjórnendurnir Gísli Einarsson, Þormóður Sigurðsson og Þór Jóhannesson. 

Ályktun vegna Iðnaðarsafnsins
Undir liðnum önnur mál hjá deildinni urðu umræður um stöðu Iðnaðarsafnsins á Akureyri, en stjórn safnsins segist munu loka safninu í síðasta lagi 1. mars nk. komi ekki til fjárframlags frá Akureyrarbæ. Nánar má fræðast um stöðuna sem uppi er t.d. hér. Undir liðnum önnur mál var lögð fram eftirfarandi ályktun sem var samþykkt samhljóða.

Iðnaðar og tækjadeild Einingar-Iðju lýsir yfir miklum áhyggjum af framtíð Iðnaðarsafnsins á Akureyri og skorar á bæjaryfirvöld á Akureyri að tryggja safninu þann fjárstuðning sem þarf til að halda þessu merka safni opnu á ársgrundvelli.

Iðnaðarsafnið á Akureyri hefur nú í 25 ár safnað og varðveitt sögu iðnfyrirtækja og starfsmanna þeirra og er ómetanlegur gagnagrunnur fyrir sögu iðnaðarbæjarins Akureyri sem okkur ber að varðveita og styðja.

Það var iðnaður sem skóp Akureyri og gerði bæinn okkar að því sem hann er, því megum við aldrei gleyma.

Opinbera deildin
Að lokinni skýrslu stjórnar sem Guðbjörg Helga Andrésdóttir, formaður deildarinnar, flutti var gengið til kosninga. Í ár var kosið um sjö af níu stjórnarmönnum deildarinnar. Kosið var til tveggja ára um formann, ritara og þrjá meðstjórnendur, en einnig þurfti að kjósa tvo meðstjórnendur til eins árs. 

Úr stjórn áttu að: Guðbjörg Helga Andrésdóttir formaður, Guðrún Valdís Eyvindsdóttir ritari og meðstjórnendurnir Andreea Georgiana Lucaci, Ólöf María Olgeirsdóttir og Valdimar Friðjón Jónsson.

Andreea hafði ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram í stjórn deildarinnar. Guðbjörg Helga gaf áfram kost á sér í embætti formanns, Guðrún Valdís Eyvindsdóttir gaf áfram kost á sér í embætti ritara og Ólöf María og Valdimar Friðjón gáfu kost á sér áfram sem meðstjórnendur. Auður Eiríksdóttir gaf kost á sér sem nýr meðstjórnandi í stað Andreeu. Helgi Garðar Skjaldarson og Sylvía Ösp Hauksdóttir sem kosin voru til tveggja ára á síðasta fundi eru hætt á starfssvæði deildarinnar og því þurfti að kjósa tvo meðstjórnendur til eins árs og buðu Skúli Már Þórmundsson og Elísabet Inga Ásgrímsdóttir sig fram. 

Engin mótframboð bárust og var listinn því sjálfkjörinn.

Fyrir í stjórn voru Ingibjörg María Ingvadóttir varaformaður og meðstjórnandinn Signý Aðalsteinsdóttir.