82 fulltrúar, frá öllum stéttarfélögum á Norðurlandi sátu 38. þing Alþýðusambands Norðurlands sem fram fór á Illugastöðum í Fnjóskadal 3. og 4. október sl., þar af voru 38 frá Einingu-Iðju. Á þinginu var samhljóða samþykkt ályktun um heilbrigðismál eins og sagt var frá hér á síðunni sl. föstudag. Einnig var samþykkt samhljóða að færa Kvennaathvarfinu á Akureyri kr. 500.000 til starfseminnar og voru sveitarfélögin á Norðurlandi eystra um leið hvött til að tryggja samtökunum öruggt húsnæði sem mætir þörfum þeirra. Það á enginn að þurfa að efast um mikilvægi starfsemi kvennaathvarfsins og brýna nauðsyn þess að tryggja aðgengi að þjónustu þess.
Fjölbreytt og góð erindi
Fjölmargir gestir mættu á þingið og voru með fjölbreytt erindi. Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, doktor í Félagsfræði við UNAK, var með fyrirlestur sem bar nafnið Slúður sem félagslegt vald og stjórnun. Steinunn Stefánsdóttir, frá Starfsleikni ehf., var með erindið Að setja mörk. Jón Gunnar Þórðarson, frá Bara Tala ehf., var með erindið Íslenska annað tungumál, bara tala. Róbert Farestveit, Sviðsstjóri Hagfræði- og greiningasviðs ASÍ, fór yfir stöðuna í samfélaginu núna haustið 2024. Í lok fyrr dags flutti Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, mjög gott erindi um verkalýðshreyfinguna í heild sinni og samspil verkalýðshreyfingarinnar, ríkis og sveitarfélaga.
Ingunn Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá SÍMEY, hóf seinni daginn þegar fjallað var um ókeypis námskeið fyrir félagsmenn hjá Símenntunarmiðstöðvunum á svæðinu. Björn Snæbjörnsson, formaður kjaranefndar félags eldri borgara á Íslandi, var næstur í pontu með erindið Er líf eftir vinnumarkaðinn, hvað tekur við? Síðasti erindið á þinginu flutti Atli Einarsson, framkvæmdastjóri Vilko ehf., en það bar nafnið Við viljum Vilko! - landslag matvælaframleiðenda á landsbyggðinni
Áður en kosningar fóru fram var farið yfir og samþykktir ársreikningar AN fyrir árin 2022 og 2023 sem og fjárhagsáætlun fyrir árin 2024 og 2025.
Ný stjórn AN
Tillaga kjörnefndar um nýja stjórn Alþýðusambands Norðurlands árin 2024-2026 var samþykkt samhljóða.
Ósk Helgadóttir, frá Framsýn, var kjörin nýr formaður AN til næstu tveggja ára. Með henni í stjórn eru Jóhannes Jakobsson, frá Byggiðn, sem er varaformaður stjórnar, og Vigdís Edda Guðbrandsdóttir, frá Samstöðu, sem er ritari stjórnar.
Varamenn í stjórn eru, Aneta Potrykus, frá Verkalýðsfélagi Þórshafnar, Atli Hjartarsson, frá Öldunni stéttarfélagi, og Eydís Bjarnadóttir, frá FVSA.
Einnig voru kjörnir tveir skoðunarmenn reikninga til tveggja ára; Rósfríð Kristín Áslaugsdóttir, frá Einingu-Iðju, og Stefanía Árdís Árnadóttir, frá FVSA. Arna Dröfn Björnsdóttir, frá Öldunni stéttarfélagi, var kjörin varamaður þeirra.