Í dag, 15. maí, eru liðin 25 ár síðan formlega var gengið frá samruna Verkalýðsfélagsins Einingar og Iðju, félags verksmiðjufólks á Akureyri. Þótt þetta sameinaða félag eigi sér þannig séð ekki langa sögu stendur það á gömlum merg því félögin eiga sér hvort um sig langa og merka sögu í baráttu verkafólks fyrir réttindum sínum. Sögu Iðju má rekja allt aftur til ársins 1936 og er stofndagur félagsins talinn 29. mars það ár. Verkalýðsfélagið Eining varð til 10. febrúar 1963 með sameiningu Verkakvennafélagsins Einingar og Verkamannafélags Akureyrarkaupstaðar. Rætur Einingar ná þó mun lengra aftur og má segja að fyrsta fræinu hafi verið sáð árið 1894 þegar Verkamannafélag Akureyrarkaupstaðar, hið eldra, var stofnað.
Fjölmenni var á stofnfundinum sem fram fór á Hótel KEA þar sem nýr formaður sagði m.a. að hann hefði miklar væntingar til hins nýja afls í eyfirskri verkalýðsbaráttu sem nú væri orðin til. „Þessar breytingar sýna hversu dugleg verkalýðshreyfingin er að laga sig að breyttum tímum og þjóðfélagsaðstæðum. Eyfirskt verkafólk ríður eins og oft áður á vaðið í þessum efnum. Það er tilbúið að takast á við nýja tíma á nýrri öld þar sem verkalýðshreyfingin ætlar sér áfram að vera öflugt þjóðfélagsafl, aflvaki framfara og breytinga til batnaðar.“
Á myndinni, sem tekin var að stofnfundi loknum, má sjá stjórnarmenn í fyrstu stjórn Einingar-Iðju. Efsta röð f.v.: Vilhjálmur Hróarsson, Ólöf Guðmundsdóttir, Hilmir Helgason, Þorsteinn J. Haraldsson og Þorkell Ingimarsson. Miðröð f.v.: Elísabet Jóhannsdóttir, Guðrún Skarphéðinsdóttir, Arndís Sigurpálsdóttir og Þorsteinn E. Arnórsson. Neðsta röð f.v.: Halldóra Höskuldsdóttir, Sigríður Bjarkadóttir, Sunna Árnadóttir, Björn Snæbjörnsson og Matthildur Sigurjónsdóttir.