Niðurstöður skýrslu sem Talnakönnun vann fyrir stjórn VIRK sýna að 19,4 milljarða króna ávinningur var af starfsemi VIRK árið 2023, reiknað á föstu verðlagi ársins 2023, en rekstrarkostnaður VIRK nam 4,1 milljörðum það sama ár.
Í skýrslunni var einnig reiknaður meðalsparnaður, ávinningur samfélagsins af virkni einstaklinganna, á hvern útskrifaðan einstakling frá VIRK og nam hann 12 milljónum króna á árinu 2023, einnig reiknað á föstu verðlagi.
Í skýrslu Talnakönnunar er fundinn mælikvarði á sparnað af starfsemi VIRK sem tekur mið af raunverulegum árangri, árangri sem felst í að flýta endurhæfingu, stytta tímabil óvinnufærni einstaklinga og minnka tíðni örorku.
Sýnt er fram á í skýrslunni að þessi ávinningur af starfsendurhæfingarþjónustu á vegum VIRK skilar sér til Tryggingastofnunar, lífeyrissjóða og ríkisins í formi aukinna skatttekna. Ofan á þetta kemur svo bættur hagur einstaklinga, bæði fjárhagslegur auk þeirra lífsgæða sem felast í því að geta tekið fullan þátt í samfélaginu.
Sjá nánar:
Skýrsla Talnakönnunar
Árangur VIRK
VIRK í tölum
Þjónustukönnun VIRK
VIRK ráðgjafar í Eyjafirði
Fjórir ráðgjafar eru starfandi fyrir sjúkrasjóði stéttarfélaganna í Eyjafirði; Helga Þyri, Katla, Kristín og Nicole. Ráðgjafar VIRK eru starfmenn VIRK, en starfa fyrir öll stéttarfélög á svæðinu, og hafa aðsetur á skrifstofu Einingar-Iðju á 2. hæð í Alþýðuhúsinu á Akureyri. Hægt er að ná í ráðgjafana í síma 535 5700.
Ágúst Sigurður Óskarsson starfar sem Atvinnulífstengill hjá VIRK og starfar fyrir öll stéttarfélög á Eyjafjarðarsvæðinu. Hann er með aðsetur á skrifstofu FVSA á 3. hæð í Alþýðuhúsinu á Akureyri í einn til tvo daga í viku.