Þriðjudaginn 1. apríl sl. rann út frestur til að skila inn umsóknum fyrir sumarið um orlofsíbúð, orlofshús eða “Orlof að eigin vali.” Til félagsins bárust 1.122 umsóknir frá 609 félagsmönnum og stendur nú yfir vinna við úthlutun en henni á að vera lokið á morgun.
Allir sem sóttu um munu fá niðurstöður úthlutunar sendar í sms/tölvupósti til sín þann dag. Á Mínum síðum félagsins má einnig sjá niðurstöðu umsóknar viðkomandi félagsmanns.
Í heimabanka þeirra sem fá úthlutað húsi eða íbúð myndast tvær kröfur, staðfestingargjald sem er hluti af leiguverði og er ekki endurgreitt ef hætt er við leigu og eftirstöðvar upphæðar. Félagsmenn geta auðvitað greitt báðar kröfurnar strax.
Staðfestingargjald að upphæð kr. 5.000 þarf að greiða fyrir 11. apríl.
5. apríl til 2. maí verður hægt að ganga frá greiðslu/lokagreiðslu fyrir úthlutað hús eða íbúð. Ef greiðsla berst ekki á þessum tíma fellur umsókn niður.
3. til 6. maí verður þeim eignum úthlutað, sem ekki hefur verið greitt fyrir eða hafa verið afbókuð, til þeirra sem fengu synjun.
Þann 8. maí kl. 12.00 opnar fyrir alla í „fyrst koma fyrst fá“. Þá er opnað inn á Mínum síðum fyrir þær vikur sumars sem eftir verða.
Punktakerfi
Til þess að gæta sem mestrar sanngirni við úthlutun orlofshúsa og orlofsíbúða notar félagið punktakerfi sem þykir hafa reynst vel. Hver félagsmaður vinnur sér inn einn punkt fyrir hvern mánuð sem hann greiðir til félagsins. Þeir sem síðan hafa safnað flestum punktum þegar kemur að úthlutun ganga fyrir þegar mikil ásókn er í húsin. Þegar félagsmaður fær úthlutað tíma í orlofshúsi dregst tiltekinn punktafjöldi frá inneign viðkomandi þannig að tryggt er að þeir sem fá úthlutað dvöl í orlofshúsi eru ekki áfram efstir á blaði, en halda þó auðvitað áfram að safna sér punktum fram að úthlutun næsta árs með því að greiða félagsgjöld.
Ekki eru dregnir frá punktar að vetri til.