„Dalurinn tók æðislega vel á móti okkur“

Í jólablaði félagsins sem borið var í hús í síðustu viku má m.a. finna viðtal við hjónin Jón Þóri Óskarsson og Hlíf Guðmundsdóttur sem eru staðarhaldarar í Orlofsbyggðinni á Illugastöðum í Fnjóskadal og hafa verið undanfarin 41 ár. 

Hér má finna viðtalið við þau með myndum á pdf- formi en einnig má lesa viðtalið við þau án mynd hér fyrir neðan

Fjölmargir landsmenn hafa dvalist í gegnum árin í orlofshúsi í Orlofsbyggðinni á Illugastöðum í Fnjóskadal. Hjónin Jón Þórir Óskarsson og Hlíf Guðmundsdóttir eru þar staðarhaldarar og hafa verið undanfarin 41 ár. Tíðindamaður blaðsins kíkti nýlega í kaffi til þeirra hjóna og forvitnaðist aðeins um þau og árin þeirra á Illugastöðum. Jón kemur frá Akureyri en Hlíf er uppalin í Öxnadal og því lá beinast við að spyrja hvernig þau hefðu endað á Illugastöðum.

Þau brosa bæði áður en Hlíf segir að það hafi nú eiginilega verið ótrúlegt. „Veturinn 1973 og 74 vann ég í Kaffibrennslu Akureyrar og sá auglýsingu í einhverju blaði um starf sem væri laust á Illugastöðum, umsjónarmanns þar með fasta búsetu á staðnum. Ég vissi nú ekkert hvar ég hafði heyrt talað um Illugastaði og að þar væri gott að vera. Ég spurði verkstjórann hvort ég mætti fá blaðið lánað heim og um kvöldið þegar við vorum að borða kvöldmatinn þá sýni ég Jóni blaðið og segi að hérna væri starf sem hann ætti að sækja um. Já er það segir hann. Ég skrifaði umsóknina, hann skrifaði undir og hér erum við. Við vorum svo ung þá, ekki nema 19 ára, og þorðum ekki að segja nokkrum manni frá þessu. Það vissi enginn neitt fyrr en eftir að búið var að hringja í Jón og tilkynna honum að starfið væri hans. Þegar við vorum búin að fara austur og skoða aðstæður þá fyrst þorðum við að segja foreldrum okkar frá þessu.“

Jón segir að hann hefði farið í viðtal vegna starfsins, en áður reyndar fengið símtal um hvort hann treysti sér í að gera þetta eða hitt. „Já sagði ég, því á þessum tíma taldi maður sig geta gert allt. Svo vorum við held ég tveir eftir þegar ég fór í viðtal og ég var valinn. Þá fyrst fórum við hingað austur til að skoða og sjá hvað þetta væri því ég hafði aldrei komið á staðinn. Þegar við tókum við voru hérna 19 hús, en þau eru 31 í dag.“

Jón var að fara að læra bifvélavirkjun og Hlíf sjúkraliðann en þau ákváðu að fresta því í þrjú ár, en árin urðu aðeins fleiri. „Þessi ár voru það lengi að líða að það verður sennilega ekkert úr þessu námi,“ segir Jón og hlær.

Hvert erum við að fara?
Í fyrra vetur snjóaði mjög mikið og kom það fyrir í fyrsta skipti að þau sáu ekki út um alla glugga hjá sér. „Við höfðum fram til þessa alltaf séð út um eldhúsgluggann,“ sagði Hlíf og sýndi mér mynd sem tekin var 27. apríl í fyrra, en sama dag fyrir 41 ári síðan fluttu þau á Illugastaði. „27. apríl 1974 var alauð jörð, allt farið að grænka og við keyrðum Vaðlaheiðina austur. Dalurinn tók æðislega vel á móti okkur. Það var ekki alveg eins og í fyrsta sinn, ég gleymi því aldrei þegar við komum hérna fyrst til að skoða svæðið eftir að Jón hafði verið ráðinn. Þá þurftum við reyndar að fara Dalsmynnið því Vaðlaheiðin var ófær, en þegar við komum að Skógum þá var fyrsti skaflinn þar og ég sagði hvert erum við að fara. Við komumst á bílnum upp að húshorninu hér á staðnum og við vorum bara alveg eins og fólk núna sem kemur frá suðurlandi, á blankskónum,“ sagði Hlíf og Jón bætti við að það hefði vorað snemma á Akureyri þetta árið. „Við töldum að það væri gott hérna líka og drifum okkar af stað, en þetta varð ævintýraferð á gömlum Moskvits, sú fyrsta af mörgum. Reyndar hafa þær flestar verið á Land Rover sem ég keypti þegar við fluttum hingað austur. Þannig var að ég ætlaði að kaupa íbúð á Akureyri og var búinn að fá vilyrði fyrir láni í bankanum, en hætti við þau kaup þegar ég fékk starfið og ákvað að kaupa mér Land Rover í staðinn. Bankinn var nú ekki alveg tilbúinn til að lána mér fyrir bíl en þegar þeir vissu hvert ég var að flytja þá breyttist viðmótið til hins betra, sennilega hafði það eitthvað með Fnjóská að gera.“

Allt á bólakafi
„Fyrstu veturna var mokað að Skógum og svo var bara troðin slóð hingað frameftir. Það var allt á bólakafi og þýddi ekkert að moka lengra. Við höfum alveg lent í því að vera í 11 tíma frá Akureyri,“ sagði Jón. „Já, svo var ævintýraferðin rétt fyrir fyrstu jólin okkar,“ sagði Hlíf. „Þegar við ætluðum aðeins að skreppa í bæinn til að kaupa inn. Við vorum 3 tíma til Akureyrar og það var orðið svo áliðið dags að við ákváðum að gista, en það skall á stórhríð daginn eftir og þannig var þetta í nokkra daga. Við ætluðum reyndar að verja jólunum á Akureyri en við þurftum samt að komast heim fyrir jól. Loks fréttum við að mjólkurbíllinn hefði komið í bæinn og væri að fara aftur austur. Við fengum að vera í samfloti og með okkur var nágranni okkar sem var að koma af sjúkrahúsinu. Lagt var af stað um hálf tólf frá Akureyri og ekið sem leið liggur alveg í Skóga. Þar er stoppað því það var ófært hingað frameftir. Nú voru góð ráð dýr, hvað skyldi gera, nágranninn varð að komast heim. Áin var stífluð og komin upp á veg. Við biðum í eina þrjá tíma í Skógum þar til ákveðið var að senda jarðýtu á undan mjólkurbílnum til að ryðja leiðina. Þetta gekk nú hægt og rólega og það var ekki til að bæta það að frostið náði 21 gráðu. Svo var farið heim í Fjósatungu og stoppað til að velta framhaldinu fyrir sér og reyna að fá svar við spurningunni, á að leggja í að fara yfir veginn þar sem áin rann yfir eða ekki. Nú enn var ákveðið að halda áfram og nú komumst við að réttinni sem er hérna niður við veg,“ sagði Hlíf. Jón hélt áfram og sagði að Klakahrönglið á veginum hefði verið miklu hærra en landroverinn. „Sonur nágrannans náði í hann á vélsleða og þannig fór hann síðasta spölinn heim til sín en við fórum heim í einu hendingskasti. Húsið var algjörlega á kafi og því þurftum við að byrja á því að moka okkur niður að dyrum. Við komumst loks inn, tókum til ferðatösku, settum eitthvað niður í hana og keyrðum aftur tilbaka. Klukkan var hálfeitt um nóttina þegar við komum aftur til Akureyrar. Það héldu allir að þetta ævintýri yrði til þess að við myndum gefast upp og fara en þetta herti okkur bara.“

Þau eru sammála um að þau gætu rifjað upp margar ævintýraferðir hvort sem væri til Akureyrar eða bara í sveitinni og sögðu að sem betur fer væri mokstur allur annar í dag en á þessum tíma, „enda væru fáir á Illugastöðum yfir veturinn ef svo háttaði til.“

Gríðarlegar breytingar
Þegar þau tóku við sem staðarhaldarar þá var svæðinu lokað um miðjan september og það þurfti að vatnstæma öll húsin fyrir veturinn. „Fyrst þurfti að blása í öll rörin í öllum húsum, engar pumpur eða dælur eða neitt. Það var bara blásið með munninum annars mundi allt frjósa. Þetta voru koparrör sem lágu í hlykkjum hingað og þangað um húsin þannig að það sat alltaf eftir vatn í þeim, alveg sama hvað við blésum, sagði Jón „Eitt árið þá kom allt í einu vatn upp úr stofugólfinu í einu húsinu en þar átti nú engin leiðsla að liggja, þannig að það þurfti að saga gólfið í sundur til að athuga hvað væri að, þá fannst sökudólgurinn. Þar var rör, því staðinn fyrir að stytta það var bara lögð lykkja á leiðsluna, þannig að yfirleitt þurfti nú að laga ansi margar lagnir eftir veturinn,“ sagði Hlíf og bætti við að eitt árið hefði þeim dottið það snjallræði í hug að nota bílpumpu, „en þegar Farmal Cub mætti á svæðið þá þótti okkur alveg kjörið að nota hann í verkið. Það var ekki gert nema eitt haust. Við vorum nærri búin að drepa okkur því pústið lá inn í húsið og allt fylltist af reyk. Næsta haust var búið að kaupa loftpressu sem var notuð við verkið og það var algjör lúxus að fá hana á svæðið.“ sagði Hlíf.

Er verið að byggja fjós?
Jón og Hlíf búa í íbúð sem er í öðrum enda þjónustumiðstöðvarinnar. „Þegar við komum þá var íbúðin tilbúin en húsið að öðru leiti fokhelt. Það var neglt fyrir alla glugga og fólk sem kom á svæðið stóð í þeirri meiningu að það væri verið að byggja stórt fjós. Þeim fannst gluggastærðin passa nokkuð fyrir slíkt hús,“ sagði Jón.

Sundlaug á 60 dögum
1978 og 1979 voru fleiri hús tekin í notkun og voru þar með orðin 31. „Fyrstu 19 húsin voru byggð árin 1967 til 70, semsagt efra svæðið, og neðra svæðið var tekið í notkun 1978 og 79. Það var byrjað að byggja þjónustumiðstöðina 1972 en hún var í byggingu alveg til 1981 og svo var sundlaugin tekin í notkun 1988,“ sagði Jón og bætti við að það hefði alltaf verið 10 ára framkvæmdaáætlun hjá þeim.

„Það var byrjað að byggja sundlaugina í maí 1988 og byrjað að synda í henni í ágúst sama ár. Það tók 60 daga að byggja eina sundlaug. Menn unnu líka eins og vitleysingar á meðan framkvæmdir stóðu yfir, yfirleitt til tíu á kvöldin og flestar helgar líka. Ég held að þetta hafi verið met í byggingarhraða á þessum tíma," sagði Jón og bætti við að þetta hafi tekist þrátt fyrir vandkvæði í upphafi. „Það var búið að fara með stiku á svæðið og mæla hve langt væri niður á fast og það var ekki nema einn og tíu niður á möl þar sem sundlaugin átti að vera en þegar við byrjuðum að taka grunninn á föstudegi þá var grafan ansi fljót að grafa í gegnum mölina. Fimm metrar niður á möl, takk. Helgin var bara tekin í það að grafa úr grunninum og keyra í aftur. Þannig að það var hægt að byrja á mánudeginum eins og til stóð. Á byggingartímanum var ákveðið að stækka laugina, bæta við pottum og gufubaðinu, húsið var líka stækkað og sett skjólgirðing. Samt tók verkið bara 60 daga.“

Í upphafi var sundlaugin hituð með rafmagni. „Þegar við vorum að hita upp sundlaugina þá féll spennan í framdalnum þannig að súgþurrkunarmótorarnir á bæjunum í kring fóru ekki í gang. Rarik fór fram á það að við myndum slökkva á sundlauginni en ég sagði að það gerði ég ekki. Las fyrir þá samninginn þar sem stóð að þeir ætluðu að skaffa okkur þetta rafmagn um ófyrirsjáanlega framtíð. Það gekk í heila 13 mánuði, þá sögðu þeir öllu upp og neituðu að selja okkur rafmagn. Þá var farið í olíukyndingu, sem betur fer, en við það lækkaði orkureikningurinn um helming. Samt áttum við eftir slatta á tankinum,“ sagði Jón.

Vatn í brúsum
„Hér áður fyrr var fullt alla páska þó húsin væru auðvitað vatnslaus. Þá fórum við aðeins yfir húsin fyrir páskana og þrifum eins og við gátum, fórum bara með vatn í brúsum til að nota við þrifin. Við notuðum mjólkurbrúsa sem við höfðum fengið gefins af bæjunum hér í kring þar sem þeir voru orðnir óþarfi því það var búið að tankvæða bæina. Þessir brúsar voru svo notaðir um páskana, en fólkið náði í vatn í brúsa í kjallarann á húsi nr. 19,“ sagði Jón og bætti við að fólki hafi þótt það ansi sérstakt að þurfa að ná í vatn í brúsa.

„Þegar nýju húsin komu 1978 og 79 þá varð mikil breyting því þau voru þannig frágengin að það var hægt að vera í þeim allt árið. Þá fannst fólkinu mikill lúxus að fá að vera í þessum húsum,“ sagði Jón og Hlíf bætti við að mesta aukningin í sambandi við vetrarleiguna hafi orðið eftir að sundlaugin kom, því heiti potturinn var opinn um helgar allan veturinn og gufan reyndar líka.

1999 var byrjað að breyta húsunum og segir Jón að þá hafi orðið veruleg bylting á svæðinu. „Það verður að viðurkennast að þau voru alveg komin á tíma, enda voru fyrstu húsin byggð 1967. Í upphafi voru húsin byggð fyrir hjón með fjögur börn, þannig var þetta hugsað þegar þeir fóru af stað. Þar sem nú eru tvö herbergi voru þrjú mjög lítil áður og þetta skipulag var alveg barn síns tíma. Margir trúðu því ekki að þetta væri sömu húsin, sama stærð, því þeim fannst plássið vera svo mikið eftir breytinguna.“

Tveggja skrokka ferð
Jón sagði að fyrstu árin hefði verið algengt að konur og börn væru keyrt á staðinn og svo bara sótt eftir vikuna. „Svo kom bíll frá Kaupfélagi verkamanna tvisvar í viku með mat, það sem búið var að panta, en á staðnum var skúr sem í var pínulítil sjoppa. Verslunarhættir fólksins hafa breyst alveg svakalega frá því svæðið var tekið í notkun. Hér áður vorum við að selja saltkjöt, súpukjöt, siginn fisk og slíkt. Grill var ekki til þannig að það var keypt drjúgt af þessu,“ sagði Jón. „Ísskáparnir voru litlir og þegar fjölskyldurnar mættu á svæðið þá var strax komið til okkur og spurt: „Get ég fengið að geyma þetta“ og það voru kannski tveir kjötskrokkar. Sumar fjölskyldur voru mjög stórar og oft var margt í hverju húsi. Svo var bara komið reglulega til okkar yfir vikuna og náð í það sem átti að elda í það og það skiptið, súpukjöt eða steik. Þetta var alveg ótrúlegt,“ sagði Hlíf.

Diskó á fimmtudögum
„Nándin var meiri hér áður fyrr, það var ekkert sjónvarp og börnin voru alltaf öll saman úti að leika sér. Það var ekkert annað að gera," sagði Hlíf. "Ég man þegar fyrsta sjónvarpið kom hér í hús. Pallurinn var fullur af börnum sem lágu á glugganum til að horfa. Breytingin á ekki lengri tíma er alveg ævintýranleg. Menn voru á móti því í byrjun að setja sjónvarp í húsin, en þegar það fyrsta kom þá var búið að höggva á hnútinn og aðrir fylgdu á eftir,“ sagði Jón.

Á fimmtudögum var boðið upp diskótek yfir sumartímann. „Þetta var áður en sjónvarpið kom á svæðið og þá datt okkur í hug að bjóða upp á diskótek einu sinni í viku. Þetta var nú aðallega að tilstuðlan Heiðars Inga, stráks sem var vinnumaður hjá okkur í nokkur ár. Heiðar kom með þessa hugmynd og ég sagði við hann að það væri í lagi ef hann myndi stjórna því. Salurinn var kominn og engin not fyrir hann því búðin var enn í kjallaranum í húsi númer 19, en þar var líka öll afgreiðsla á þvotti eða líni þar til það flutti hingað í þjónustumiðstöðina.

Heiðar fékk leyfi til að taka upp á spólur í Dynheimum og eyddi alveg óhemju tíma í það. Það voru engir diskar á þessum tíma, bara spólur, og svo var bara notast við tvö tæki. Svo var hafist handa og haldið diskótek. Aðsóknin var alveg ótrúleg. Það máttu allir koma, en kostaði fimmkall inn til að hafa smá stjórn á hvað við værum að fá marga. Við ætluðum að hafa frítt fyrir fimm ára og yngri en þau urðu móðguð. Þau voru að fara á ball og vildu borga inn eins og aðrir. Fyrir þetta voru keyptar spólur og einhverjar græjur. Þarna var dansað og marserað og Heiðar Ingi stjórnaði með röggsemi. Það voru margir sem komu að því að stjórna þessum kvöldum í gegnum árin og höfðu gaman af,“ sagði Hlíf.

Allt á floti
Vorið 1995 urðu mikil flóð á svæðinu þegar lækurinn sem rennur í gegnum svæðið breyttist í stórfljót. „Við vorum búin að vera allan daginn að þrífa hús og ætluðum að fara að grilla, þó klukkan væri orðin ansi margt. Allt í einu hætti ég að heyra í læknum, en það voru miklir vatnavextir í ánni og bara öllu, og heyri þess í stað alveg ægilegt öskur. Þá hafði lækurinn stíflast ofan við veginn og þegar stíflan brast sprengdi hann af sér tunnurnar sem hann rann í ofan við sundlaugina. Það flæddi hér um allt þannig að það var rokið í að grafa og reyna að veita vatninu í burtu og lauk því um miðnætti. Þá var borðað. Þetta var á sama tíma og brúin féll í Fnjóska. Brúin hérna var alveg að fara og vegurinn í sundur á tveimur stöðum hér norðan við. Við þurftum líka að tæma nokkur hús í efra hverfi því það rann svo mikið vatn úr brekkunni. Þetta var alveg skelfilegt og þarna var maður hvað hræddastur um húsin, en allt fór vel að lokum,“ sagði Jón.

Hitaveitan
Árið 2006 var lögð hitaveita um svæðið og þá varð enn bylting hvað varðar aðsókn. „Við fórum úr fimm til sex hundruð gistinóttum yfir veturinn í svona 16 til 18 hundruð. Þetta varð veruleg breyting frá því sem var og það er ekki síst að þakka að pottar voru settir við öll húsin. Þeir byrjuðu að grafa 6. janúar og þá var ákveðið að loka svæðinu út júní. Það átti bara að keyra á þetta og klára fyrir 1. júlí. Það voru nú ekki allir sem trúðu að það myndi ganga, en það hafðist. Það hjálpaði líka að veturinn var snjóléttur,“ sagði Jón.

Fyrirhuguð stækkun
Í nýju deiliskipulagi fyrir Illugastaði er gert ráð fyrir nýrri 32 húsa frístundabyggð á túninu ofan við neðri byggðina. Stærðir orlofshúsa í nýju byggðinni verða frá 95m² og upp í 130m² að grunnfleti og á einni hæð. Það fer eftir áhuga stéttarfélaganna hvenær framkvæmdir hefjast, en þó vonandi ekki síðar en 2017.

Þeim líst vel á þessar hugmyndir og Hlíf segist líka horfa á það þannig að ef það komi fleiri hús þá verði eitthvað meira gert fyrir sundlaugarsvæðið. „Það er kominn tími á að gera eitthvað meira fyrir sundlaugina, sérstaklega fyrir krakkana. Þessi fríðindi, fyrir gestina sem dvelja í húsinu, að fá frítt í sund er ótrúlega fjölskylduvænt. Hvert hús fær eitt kort sem hefur þau áhrif að hópurinn fer yfirleitt saman í sund.“

Jón segir að nýju göngin eigi líka eftir að koma til með að breyta mjög miklu að nú sé líka verið að horfa á stærri hús en eru fyrir sem er gott því það fari vaxandi að tvær fjölskyldur komi saman. „Þannig að stærri hús nýtast vel í það. Nýja svæðið verður líklega mun rýmra, það er lengra á milli húsa. Samt verður að viðurkennast að þó húsin í efra hverfinu séu svona þétt þá hefur fólk spurt hvort einhver sé á svæðinu, jafnvel þó gestir séu í öllum húsum. Gróðurinn lokar svo vel af, en frá því við komum er búið að planta mörg þúsund plöntum. Þann áttunda maí á hverju ári hef ég tekið mynd yfir kirkjuna og það sýnir manni hvernig snjóalög hafi verið milli ára.“

Fjölbreytt, gefandi og skemmtilegt starf
„Auðvitað lendum við í ýmsu og gestirnir misjafnir sem koma, en upp til hópa mjög góðir. Það eru alltaf svartir sauðir inn á milli en á öllum þessum árum hef ég aðeins einu sinni þurft að hringja á lögregluna,“ segir Jón og bætir við að auðvitað sé starfið bindandi, „en það er mjög fjölbreytt, gefandi og skemmtilegt. Við værum ekki búin að endast hér allan þennan tíma ef við hefðum ekki gaman af því sem við erum að gera.“

„Við erum búin að vera öll þessi ár hérna og þegar maður hugsar til þess þá hefur það auðvitað mikið að segja hve æðislega gott er að búa í þessum dal og líka að okkur var tekið alveg svakalega vel. Fólkið hérna á bæjunum, 30 árum eldra en við og jafnvel meira, tóku okkur eins og við værum börnin þeirra,“ segir Hlíf. „Það var fylgst vel með manni og reyndust syni okkar eins og afar og ömmur,“ segir Jón. Þau segjast strax hafa tekið þátt í félagsstarfinu í dalnum enda verði allir að taka þátt í svona litlu samfélagi. „Við hefðum aldrei kynnst fólkinu í sveitinni svona vel ef við hefðum setið heima og bara farið inn á Akureyri,“ sögðu þau hjón að lokum.