- 103 stk.
- 22.06.2018
21. júní var farið í árlega dagsferð fyrir aldrað Einingar-Iðjufólk, en þá fóru um 50 félagsmenn og makar með í hringferð um Tröllaskaga. Ekið var af stað klukkan 9:00 frá Alþýðuhúsinu á Akureyri í sól og blíðu og var stefnan tekin á Fjallabyggð. Ákveðið var að beygja út af þjóðvegi 1 við Hlíðarbæ og aka Skottið svokallaða. Í Ólafsfirði var tekið stutt sjoppustopp en svo var ekið til Siglufjarðar þar sem Síldarminjasafnið var skoðað. Að því loknu var snæddur mjög góður hádegisverður á Sigló hóteli. Áfram var haldið og var næst stoppað á Hofsósi þar sem Vesturfarasetrið var heimsótt. Á leiðinni þangað kom smá bleyta að ofan en þurrt var er komið var á Hofsós, þó var óþarflega mikill hraði á logninu. Hólar var næst á dagskrá þar sem Hóladómkirkja var skoðuð. Þar tók Gylfi Jónsson staðarhaldari á móti hópnum og stiklaði á stóru um sögu jarðarinnar og kirkjunnar.
Ekið var í gegnum Sauðárkrók og í Varmahlíð þar sem drukkið var síðdegiskaffi á Hótel Varmahlíð en að því loknu var ekið heim til Akureyrar á ný.
Leiðsögumaður dagsins, Bragi Guðmundsson, var alveg frábær en hann var uppfullur af margvíslegum og skemmtilegum fróðleik um það sem fyrir augu bar á leiðinni. Ársæll bílstjóri fékk líka gott lófaklapp í lok ferðar.
Frábær dagur með enn betra fólki. Takk fyrir samfylgdina.