Yfirvofandi gjaldþrot Norðurstrandar á Dalvík

Rúmlega 30 manns missa vinnuna hjá fiskvinnslunni Norðurströnd ehf. á Dalvík vegna yfirvofandi gjaldþrots fyrirtækisins. Gjaldþrotabeiðni Íslandsbanka verður væntanlega tekin fyrir á fimmtudag í Héraðsdómi Norðurlands eystra, að sögn Guðmundar St. Jónssonar, framkvæmdastjóra Norðurstrandar. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Guðmundur segir jafnframt að unnið hefði verið að fjárhagslegri endurskipulagningu rekstursins í allt að þrjá mánuði en þessi hefði orðið niðurstaðan. Vinnsla hefur legið niðri á meðan, en starfsfólkið hefur verið á launum fram undir þetta. Hugmyndir eru um að endurreisa reksturinn á Dalvík. „Við höfum unnið að því að endurvekja þetta á einhvern hátt með aðkomu annars aðila. Sú vinna lítur ágætlega út. Við sögðum fólkinu okkar á fundinum á föstudag að það væri inni í myndinni að nýtt félag myndi hefja vinnslu á nýju ári. En það er ekkert hægt að segja meira um það á þessu stigi,“ sagði Guðmundur jafnframt við Morgunblaðið.

Starfsfólki Norðurstrandar á Dalvík var greint frá þessu á fundi sl. föstudaginn. Anna Júlíusdóttir og Þorsteinn E. Arnórsson starfsmenn Einingar-Iðju voru á fundinum ásamt starfsmanni Vinnumálastofnunar. „Það hefur mikil áhrif ef þeir starta ekki upp aftur þessari vinnslu,“ sagði Anna Júlíusdóttir, varaformaður Einingar-Iðju, um stöðu fyrirtækisins. Hún segir í Morgunblaðinu það vera gríðarlega alvarlegt og hafa mikil áhrif þegar meira en 30 manns missi vinnu í svo litlu bæjarfélagi. „Við héldum þarna fund sem gekk mjög vel. Fólkið fékk á föstudag laun fyrir nóvember. Svo fer það á atvinnuleysisskrá. Þetta verður gríðarlega erfitt fram yfir jól því fólkið á ekki von á tekjum og ekki peningum frá Vinnumiðlun fyrr en í allra fyrsta lagi um miðjan janúar eða jafnvel ekki fyrr en í byrjun febrúar. Þetta fólk er ekki með neitt á milli handanna og það er erfitt, sérstaklega á þessum árstíma.“