Yfirsjón eða kæruleysi?

Í kjarasamningnum sem samþykktur var í mars sl. var ákvæði um að hækka gjald í starfsfræðslusjóð úr 0,20% af heildarlaunum í 0,30%, en gjaldið skapar rétt launafólks í Landsmennt, sem er fræðslusjóður verkafólks á landsbyggðinni.

Eftir að samningurinn var samþykktur sendi Eining-Iðja bréf til allra fyrirtækja sem starfa eftir samningnum á félagssvæðinu til að leggja áherslu á breytinguna.

Þrátt fyrir að bréfið hafi verið sent öllum þessum aðilum eru ótrúlega margir sem hafa ekki tekið mark á breytingunni.
Spurningin er hvers vegna?
Er þetta vegna gleymsku, eða vegna þess að póstur frá stéttarfélaginu er ekki lesinn?

Þetta er áhyggjuefni. Ef fyrirtækin vita ekki af þessari breytingu, þrátt fyrir bréfið sem félagið sendi, hvernig er þá með aðrar breytingar á kjarasamningnum, svo sem launahækkanir?

Starfsmenn Einingar-Iðju hafa undanfarið séð dæmi um að félagsmenn sem fá greitt eftir taxta hafa einungis hækkað um 2,8% en ekki um allt að 5% eins og samið var um.

Eining-Iðja hvetur alla félagsmenn til að skoða vel launaseðlana sína og hafa endilega samband ef þeir telja að réttindi þeirra séu ekki virt.

Það er líka vert að taka fram að það fer mikil vinna í leiðréttingar á skilagreinum og mikill kostnaðarauki fyrir félagið að senda fleiri tugi innheimtubréfa.