Á heimasíðu SGS má finna eftirfarandi frétt: Í tilefni þeirra skrifa sem koma fram á vefsíðu Verkalýðsfélags Akraness vill samningaráð Starfsgreinasambandsins koma eftirfarandi á framfæri:
Nú standa yfir kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins á hinum almenna vinnumarkaði enda runnu gildandi kjarasamningar út um síðustu mánaðarmót. Mikil og þétt vinna fer fram í samninganefndum stéttarfélaga, landssambanda og á vettvangi ASÍ. Í þeirri vinnu er velt upp ýmsum möguleikum, margar tölur eru notaðar til viðmiðunar við útreikninga og alls konar sviðsmyndir kynntar. Á fundi samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands í vikunni voru settar fram tölur til viðmiðunar í reiknilíkön. Þessar tölur voru ekki ætlaðar til opinberrar birtingar enda er ekki byrjað að semja um krónur eða prósentur við Samtök atvinnulífsins. Það skýtur því skökku við að upplýsingar sem enn eru til umræðu sem trúnaðarmál inn í samninganefnd SGS skuli vera komnar inn á vef Verkalýðsfélags Akraness. Þær hafa ekki verið samþykktar af samninganefnd SGS né á vettvangi samninganefndar ASÍ.
Það eru hrein ósannindi sem fram koma á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness að þeir kjarasamningar sem nú er unnið að komi ekki til atkvæðagreiðslu meðal almennra félagsmanna. Að sjálfsögðu verður sá samningur sem vonandi er í burðarliðnum lagður fyrir allt launafólk í verkalýðsfélögunum eins og lög um stéttarfélög og vinnudeilur gera ráð fyrir.
Samninganefnd SGS hefur samþykkt að vera í samstarfi við önnur landssambönd innan ASÍ til að ná sem bestum kjarasamningum í þeirri stöðu sem er uppi. Það kunna að vera skiptar skoðanir um aðferðarfræði en eitt er víst að samninganefndin, samningaráðið og allir sem koma að kjarasamningunum vinna að sama markmiði, að ná sem bestum samningum fyrir verkafólk.
Samningaráð SGS skipa: Björn Snæbjörnsson, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir og Finnbogi Sveinbjörnsson.