Yfirlýsing ASÍ vegna skipunar í samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga

Þann 22. desember sl. tilkynnti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Alþýðusambandinu að samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga, sem skipaður var af forvera hans í þeim tilgangi að efna til þjóðarsamtals um landbúnað í janúar 2017, hafi verið lagður niður. Í samráðshópnum sátu 13 fulltrúar frá ólíkum hagsmunaaðilum og var honum ætlað að tryggja að víðtæk samvinna og sátt næðist við breytingar á búvörusamningi og búvörulögum.

Í framhaldi tók ráðherra ákvörðun um að skipa 8 fulltrúa í nýjan samráðshóp þar sem gert var ráð fyrir að ASÍ og BSRB myndu skipa sameiginlegan fulltrúa. ASÍ og BSRB fóru hins vegar fram á að eiga hvorn sinn fulltrúan í samráðshópnum. Á það var ekki fallist. Alþýðusambandið og BSRB hafa um áratugaskeið staðið saman að samtali við stjórnvöld um landbúnað, m.a. með setu í verðlagsnefnd búvara. Á undanförnum misserum hefur þróun þessara mála verið með þeim hætti að vaxandi ósætti er um stefnu stjórnvalda í landbúnaðarmálum. Leiddi það m.a. til þess að samtök launafólks hafa hafnað því að skipa fulltrúa í verðlagsnefnd búvara þar til endurskoðun þessarar stefnu hefur farið fram. Því gerðu samtökin kröfu til þess að eiga hvorn sinn fulltrúan í þessari nefnd. 

ASÍ skorar á stjórnvöld að koma á raunverulegu þjóðarsamtali um íslenskan landbúnað þannig að hægt sé að nýta tækifæri til jákvæðra breytinga, framleiðendum, neytendum, launafólki og byggðum til góða.

Hvar er þjóðarsamtalið?

Stjórnvöldum hefur reynst erfitt að koma á samtali um framtíð íslensks landbúnaðar undanfarin ár. Vorið 2014 átti ASÍ fulltrúa í nefnd sem vinna átti að stefnumótun í mjólkurframleiðslu í aðdraganda búvörusamninga. Vinna þessa hóps fór hins vegar aldrei af stað þar sem beðið var eftir skýrslu Hagfræðistofnunar um stöðu og horfur í mjólkurframleiðslu á Íslandi. Eftir útgáfu skýrslunnar var nefndin aldrei kölluð saman og fljótlega var starfshópurinn lagður niður og búvörusamningar undirritaðir án aðkomu launafólks, neytenda eða annarra hagsmunaaðila.

Búvörusamningarnir voru fjarri því óumdeildir, en með undirritun var núverandi kerfi fest enn frekar í sessi eða til tíu ára og var harðlega gagnrýnt að ekki hefði verið horft til sjónarmiða neytenda og launafólks við gerð samninganna. Í skýrslu Hagfræðistofnunar var meðal annars lögð áherslu á að auka þyrfti samkeppni í mjólkuriðnaði. Þar var bent á að íslenskar mjólkurvörur yrðu áfram samkeppnishæfar þó magntollar yrðu felldir niður og verðtollar lækkaðir í 20%. Þar var enn fremur bent á að reynsla af tollalækkun í grænmetisrækt sýni að slíkar aðgerðir skili sér beint í vasa neytenda.  

Í kjölfar búvörusamninga var boðað til þjóðarsamtals um landbúnað að frumkvæði atvinnuveganefndar Alþingis. Þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, skipaði upphaflega 7 fulltrúa í samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Þar var ætlast til þess að ASÍ og BSRB myndu eiga sameiginlegan fulltrúa í hópnum. Þessu mótmæltu ASÍ og BSRB sem kröfðust þess að fá sinn fulltrúa hvort. Við þessu var brugðist og fulltrúum í samráðshópnum fjölgað, en tvívegis var skipað í útvíkkaða hópinn, einu sinni af Gunnari Braga og svo aftur af Þorgerði Katrínu.  

Í lok síðasta árs tók núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þá ákvörðun að leggja niður samráðshópinn og skipa í  nýjan hóp og fækka enn og aftur fulltrúum. Eins og áður sagði bauðst ASÍ að skipa sameiginlegan fulltrúa með BSRB en ekki reyndist vilji til þess. Það er dapurleg niðurstaða að íslenskt launafólk eigi ekki talsmann í samráðshópi um endurskoðun búvörusamninga, hvorki þeir sem starfa í greininni né aðrir sem hafa mikla hagsmuni af þróun landbúnaðarins.

Það er skoðun ASÍ að breytinga sé þörf í íslenskum landbúnaði, framleiðendum, launafólki og neytendum til góða. Núverandi kerfi hefur ekki sýnt að það sé best fallið til þess að auka nýsköpun, tryggja byggð eða skila aukinni hagræðingu og framleiðni til neytenda eða launafólks.