Samkvæmt niðurstöðum nýrrar verðkönnunar Verðlagseftirlits ASÍ á matvöru á Norðurlöndunum er vörukarfa í Reykjavík mun dýrari en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna. Vörukarfa samansett af algengum matvörum úr helstu vöruflokkum er 67% dýrari í Reykjavík en í Helsinki þar sem hún er ódýrust. Verðkönnunin var framkvæmd dagana 5.- 9. desember sl. í leiðandi lágvöruverðsverslunum í höfuðborgum Norðurlandanna. Í könnuninni er borið saman verð á algengum neysluvörum í sambærilegum verslunum, vörur á borð við mjólk, osta, kjötvörur, grænmeti, ávexti og brauð.
40% verðmunur á Reykjavík og Oslo
Verðsamanburðurinn var gerður á vörukörfu sem inniheldur undirstöðumatvörur úr öllum helstu vöruflokkum í lágvöruverðsverslunum í höfuðborgum Norðurlandanna. Samkvæmt úttektinni er vöruverð í lágvöruverðsverslunum hæst á Íslandi, samanborið við hin Norðurlöndin, en vörukarfan er 67% dýrari í Reykjavík en í Helsinki sem var með lægsta vöruverðið. Það land sem er næst Íslandi í verðlagi er Noregur en vörukarfan í Oslo er samt sem áður 40% ódýrari en í Reykjavík.
Vörukarfan sem verðlagseftirlitið bar saman var dýrust í Reykjavík þar sem hún kostaði 7.878 kr. og næst dýrust í Noregi, þar sem hún kostaði 5.631. kr. Sambærileg vörukarfa í Kaupmannahöfn kostar 5.173 kr og 5.011 krónur í Stokkhólmi. Ódýrasta matvörukarfan var í Helsinki þar sem hún kostaði 4.729 kr. Verð á þeim vörum kannað var reyndist oftast hæst í Reykjavík eða í 12 tilvikum af 18 en í 8 tilvikum af 18 var vöruverðið lægst í Helsinki.
Mikill verðmunur í öllum vöruflokkum
Mikill verðmunur var á öllum vöruflokkum í könnuninni. Þannig kostar kílóið af brauðosti (25-30%) 1.411 kr. á Íslandi en 1.235 kr. í Noregi sem er með næst hæsta verðið, 1.097 kr í Kaupmannahöfn, 678 kr. í Stokkhólmi, og 556 kr. í Helsinki. Þannig reyndist 152% verðmunur vera á kílóverði af brauðosti milli Reykjavíkur og Helsinki. Mikill verðmunur er einnig á kjötvörum en kíló af ungnautahakki kostar 1.598 kr. í Reykjavík, 1.326 kr í Oslo, 1.043 kr. í Kaupmannahöfn, 1.085 kr. í Kaupmannahöfn og 946 kr. í Helsinki, sem gerir 69% verðmun á hæsta og lægsta verði. Þá er 240% verðmunur á niðursneiddri skinku sem kostar 2.749 kr. kg á Íslandi, 1.058 kr. í Kaupmannahöfn, 1.035 kr. í Oslo, 813 kr. í Stokkhólmi og 808 kr. í Finnlandi þar sem verðið er lægst.
Verðmunurinn á grænmeti var sömuleiðis mikill en sem dæmi má nefna að 560% munur var á hæsta og lægsta kílóverði á gulrótum og 213% munur á hæsta og lægsta verði á kartöflum. Í töflunni hér að neðan má sjá nokkur dæmi um verðmun á milli höfuðborganna á vörum úr vörukörfunni.
Hér má sjá vörukörfuna í heild sinni (PDF)
Áþekkar niðurstöður og úr könnun Verðlagseftirlits 2006
Niðurstöður könnunarinnar eru í takt við það sem kom út úr sambærilegri verðkönnun sem Verðlagseftirlitið framkvæmdi árið 2006. Helsta breytingin er sú að meiri munur er á Íslandi og Oslo í dag en þá, en 40% verðmunur er á vörukörfunni nú en hann var einungis 3%. Stokkhólmur var ódýrasta borgin árið 2006 en í dag er Helsinki ódýrasta borgin.
Verðlag á Íslandi hæst í Evrópu
Hagstofan vakti nýlega athygli á uppfærðri tölfræði evrópsku hagstofunnar, Eurostat, um verðlag á Norðurlöndunum þar sem fram kemur að verðlag á Íslandi er það hæsta í Evrópu. Ísland er þar í flokki með Sviss og Norðurlöndunum þar sem verðlag er á bilinu 20-66% hærra en að meðaltali í Evrópu.
Um könnunina
Verðkönnunin var framkvæmd í stórmörkuðum og lágvöruverðsverslunum í höfuðborgum Norðurlandanna 5.- 9. desember síðastliðinn. Farið var í leiðandi matvörukeðjur á hverjum stað þar sem gera má heildarinnkaup til heimilisins. Í þeim tilvikum þar sem fleiri en ein tegund af tiltekinni vöru var fáanleg í versluninni, var ávallt valinn ódýrasti kosturinn sem uppfyllti sett skilyrði.
Borið er saman verð til neytenda út úr verslun og það umreiknað í íslenskar krónur mv. meðalgengi viðkomandi gjaldmiðils 5.-9. desember, dagana sem könnunin var framkvæmd.