Haustið 2011 fór VIRK af stað með Virkan vinnustað, metnaðarfullt 3ja ára þróunarverkefni um forvarnir á vinnustað og endurkomu
einstaklinga til vinnu eftir veikindi eða slys. VIRK var umsjónar- og ábyrgðaraðili verkefnisins en fulltrúar frá aðilum vinnumarkaðarins sátu
í stýrihópi þess. 12 fyrirtæki og stofnanir tóku þátt í verkefninu, um 30 vinnustaðir innan mismunandi starfsgreina, svo sem verslunar
og þjónustu, fræðslu- og heilbrigðisstarfsemi, framleiðslustarfsemi og fiskiðnaðar.
Kannaðar voru og prófaðar leiðir sem aukið gætu vellíðan starfsmanna á vinnustaðnum, minnkað fjarveru
þeirra og auðveldað þeim endurkomu til vinnu eftir langtíma veikindi. Viðamikil fræðsluáætlun var í gangi öll
þrjú árin, bæði fyrir starfsfólk og stjórnendur svo að forvarnagildi viðverustefnu skili sér markvisst inn á vinnustaðinn. Einnig
var fræðsla tengd innleiðingu sérstakra viðverusamtala sem er markvisst tæki til að hafa áhrif á skammtíma- og langtíma fjarveru.
Í upphafi og lok verkefnisins fór fram vinnustaðagreining auk þess sem lykiltölum fjarvista var safnað öll þrjú árin hjá hverjum
vinnustað fyrir sig og þær dregnar saman að því loknu.
Þróunarverkefninu lauk í árslok 2014 og niðurstöðurnar voru kynntar á málþingi 5. maí. Auk þess er bæklingur um
fjarverustjórnun væntanlegur sem hægt verður að nálgast á heimasíðu VIRK.
Á málþinginu fluttu erindi þau Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK, Jónína Waagfjörð deildarstjóri
hjá VIRK, Vilhjálmur Kári Haraldsson mannauðsstjóri Garðabæjar, Jóna Jónsdóttir starfsmannastjóri Norðlenska, Halldór
Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, Álfheiður M. Sívertsen lögfræðingur hjá SA, Ragnheiður Stefánsdóttir
mannauðsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg og Ása Dóra Konráðsdóttir sviðsstjóri starfsendurhæfingarsviðs VIRK . Gylfi
Dalmann Aðalsteinsson dósent við Háskóla Íslands stjórnaði fundi af röggsemi og leiddi umræður.
Sjá má glærur sem fylgdu erindum frummælenda hér að neðan auk þess að upptökur á erindum þeirra má sjá
á youtuberás VIRK.
Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK
Virkur vinnustaður og þróun hjá VIRK
Jónína Waagfjörð deildarstjóri hjá VIRK
Þróunarverkefni VIRK: Virkur vinnustaður
Vilhjálmur Kári Haraldsson mannauðsstjóri Garðabæjar
Hver er galdurinn á bak við árangursríka
viðverustjórnun?
Jóna Jónsdóttir starfsmannastjóri Norðlenska
Norðlenska – fjarvistir og viðbrögð
Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ
Virkur vinnustaður – Byggjum á verðmætri reynslu
Álfheiður M. Sívertsen lögfræðingur hjá SA
Hagur vinnustaða af fjarverustefnu
Ragnheiður Stefánsdóttir mannauðsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg
Og hvað svo? Hvað tók við eftir að Virkum vinnustað lauk?
Ása Dóra Konráðsdóttir sviðsstjóri starfsendurhæfingarsviðs VIRK
Næstu skref – Tenging við starfsendurhæfingarferli VIRK
Nánari upplýsingar um Virkan vinnustað má sjá hér.