Með þessu metnaðarfulla átaki sameinuðust stjórnvöld og hagsmunaaðilar á vinnumarkaði með einstökum hætti til að tryggja langtímaatvinnulausum tækifæri til að komast inn á vinnumarkaðinn að nýju.
Í lokaskýrslu kemur m.a. fram að tilboð um 2.301 starf var skráð í verkefnið, en markmiðið var 2.200 störf. Af þeim var allur þorrinn störf á almennum vinnumarkaði. 1.304 einstaklingar skráðu sig til þátttöku í verkefninu sem var tæpur helmingur þeirra sem áttu rétt til þátttöku.
Af þeim störfum sem til miðlunar komu var ráðið í 1.058 störf á vegum verkefnisins. Þar af voru 940 ráðningar vegna einstaklinga sem voru þátttakendur í Liðsstyrk, en 118 vegna einstaklinga utan markhóps verkefnisins. 636 störf voru afturkölluð af hálfu atvinnurekenda og 574 störf voru afskráð af miðlurum. Þegar verkefninu lauk voru 33 störf skráð í miðlun. Þegar verkefninu lauk voru 353 einstaklingar skráðir í verkefnið sem ekki höfðu fengið einhvers konar afgreiðslu sinna mála.
Það er mat Alþýðusambandsins að reynslan af Liðsstyrk sé í heildina góð og að mikilvægt sé að byggja áfram á því ágæta samstarfi sem tekist hefur með aðilum vinnumarkaðarins og stjórnvalda um virkar vinnumarkaðsaðgerðir. Tekið er undir með verkefnisstjórn Liðsstyrks að mikilvægt sé draga lærdóm af verkefninu, bæði því sem vel tókst til og því sem tókst síður. Sama gildir um önnur verkefni í tengslum við þjónustu við atvinnuleitendur sem ráðist hefur verið í frá árinu 2009. Markmiðið er að tryggja eins og kostur er að atvinnuleitendur fái góða þjónustu og að þeir verði aðstoðaðir við að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði og í samfélaginu.