Framkvæmdastjórn VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs hefur ákveðið að veita í fyrsta sinn í haust styrki til virkniúrræða sem styðja við og auka árangur í starfsendurhæfingu. Markmið VIRK með styrkveitingunum til virkniúrræðanna er að stuðla að samstarfi við aðila sem veita opið og gjaldfrjálst aðgengi að þjónustu fyrir einstaklinga sem glíma við heilsubrest sem hefur áhrif á atvinnuþátttöku þeirra. Umsóknarfrestur rennur út 15. ágúst.
Styrkirnir til virkniúræðanna bætast við styrki sem VIRK veitir til rannsóknarverkefna og uppbyggingar- og þróunarverkefna en VIRK er heimilt samkvæmt lögum 60/2012 að styrkja og stuðla með öðrum hætti að rannsóknum, þróun og uppbyggingu í atvinnutengdri starfsendurhæfingu m.a. með styrkveitingum.
Framkvæmdastjórn VIRK úthlutar styrkjunum tvisvar á ári í þessu skyni og þurfa umsóknir um styrkina að hafa borist sjóðnum fyrir 15. janúar eða 15. ágúst ár hvert. Ákvarðanir um styrkveitingar eru teknar í framhaldinum af framkvæmdastjórn VIRK, í mars og október, að fenginni umsögn frá sérfræðingum sjóðsins.
Nánari upplýsingar, stefnur og reglur varðandi umsóknir á styrkjum til VIRK og umsóknareyðublöð má sjá hér.