VIRK - styrkjum úthlutað

Veittir voru styrkir til virkniúrræða, rannsóknarverkefna og þróunarverkefna á ársfundi VIRK sem fram 30. apríl sl. Alls fengu 13 aðilar styrki og þar á meðal Grófin geðverndarmiðstöð á Akureyri. Þrjátíu og ein umsókn barst til VIRK fyrir lok umsóknarfrests þann 15. febrúar sl. Allar umsóknir hlutu faglega umfjöllun hjá sérfræðingum VIRK en ákvarðanir um styrkveitingar voru í framhaldinu teknar af framkvæmdastjórn VIRK.

Styrkur til rannsóknaverkefnis

Arnór Víkingsson: Heilsa, líðan, færni og hagir einstaklinga fjórum árum eftir 75% örorkumat
Markmiðið rannsóknarinnar er að fá ítarlega mynd af núverandi heilsu, andlegri og líkamlegri líðan, færni og persónuhögum þeirra einstaklinga sem voru úrskurðaðir í 75% örorka árið 2015. Einnig á að kanna atvinnuþátttöku þeirra og mat þeirra á líkum á endurkomu á vinnumarkað.

 

Styrkir til uppbyggingar- og þróunarverkefna

Sigurþóra Bergsdóttir: Bergið Headspace – móttöku og stuðningsúrræði fyrir ungt fólk
Markmið og tilgangur verkefnis er að veita lágþröskulda aðgengi fyrir ungt fólk að ráðgjöf og hjálp við þeim vanda sem þau glíma við. Stofna á þverfaglegt móttöku- og stuðningssetur fyrir ungt fólk upp í 25 ára, með einstaklings- og áfallamiðaðri þjónustu. Veittur er styrkur til að styðja við þróun úrræðisins.

Rauði krossinn: Karlar í skúrum 
Karlar í skúrum er úrræði sem gefur karlmönnum stað og stund til þess að hittast og vinna að sameiginlegum og/eða eigin verkefnum á sínum eigin hraða. Markmið verkefnisins er að skapa aðstæður þar sem heilsa og vellíðan karla er höfð í fyrirrúmi og þeir geta haldið sér við líkamlega, andlega og félagslega. Veittur er styrkur til að þróa úrræðið úti á landi.

Agnes Ósk Snorradóttir og Kara Elvarsdóttir: Fjarþjálfun við streitueinkennum
Markmið verkefnis er að þróa fjarþjálfunarúrræði fyrir einstaklinga með einkenni streitu sem kjósa að sinna sinni þjálfun heima við. Notað er sérstakt smáforrit (app) í símanum þar sem þátttakendur svara spurningalista og gerð er þjálfunaráætlun miðað við niðurstöður. Eftirfylgd er í gegn um smáforritið og einnig hægt að leggja inn skilaboð til sjúkraþjálfara. Í hverri viku fá skjólstæðingar u.þ.b. klst. af efni sem inniheldur fræðslu, æfingar og slökunaræfingar. Úrræði getur nýst vel skjólstæðingum á landsbyggðinni þar sem sumstaðar eru fá úrræði í boði.

Kvíðameðferðarstöðin: Náðu tökum á þunglyndi: Þróun og mat á gæðum hópmeðferðar
Markmið verkefnisins er að þróa umfangsmeira hópúrræði sem hentað getur hópi þunglyndra betur, gera úttekt á gæðum þeirrar meðferðar og betrumbæta meðferðina í samræmi við niðurstöður úttektar. Í dag er ekki í boði sambærilegt úrræði. Áherslur í meðferðinni eiga vel við starfsendurhæfingu þar sem þátttakendum eru kenndar haldbærar aðferðir sem í senn eru gagnreyndar og valdeflandi.

Styrkir til virkniúrræða

Björgin Geðræktarmiðstöð Suðurnesja, Reykjanesbæ
Björgin er grunnendurhæfingarúrræði og athvarf fyrir fólk með geðheilsuvanda. Þjónusta miðar að því að bæta þjónustu í heimabyggð við einstaklinga sem glíma við geðrænan vanda og til að rjúfa félagslega einangrun. Björgin geðræktarmiðstöð býður upp á opið aðgengi fyrir einstaklinga alla virka daga þar sem boðið er upp á reglulega viðveru og stuðning í daglegu lífi, námskeið og virknistarf. Öll þjónusta er notendum að kostnaðarlausu.

Hugarafl, notendastýrð starfsendurhæfing, Reykjavík
Félagasamtökin Hugarafl eru samtök fólks með geðraskanir og er notendastýrð starfsendurhæfing. Einstaklingar sem stunda endurhæfingu hjá Hugarafli getur sótt atriði á dagskrá sem styðja við bataferli viðkomandi og síðar unnið að auknum tækifærum í samfélaginu s.s. skólagöngu, atvinnu eða auknum lífsgæðum. Hugarafl býður upp á opið aðgengi fyrir einstaklinga alla virka daga þar sem boðið er upp á reglulega viðveru og stuðning í daglegu lífi, námskeið og virknistarf. Öll þjónusta er notendum að kostnaðarlausu.

Grófin geðverndarmiðstöð, Akureyri
Starfsemi Grófarinnar er byggð á hugmyndafræði valdeflingar, batanálgunar og jafningjasamskipta. Markmið Grófarinnar eru m.a. að skapa tækifæri fyrir þá sem glíma við geðraskanir til að vinna í sínum bata, þar sem hver og einn tekur ábyrgð á sjálfum sér. Einstaklingar innan Grófarinnar hafa farið markvisst með fræðslu um geðraskanir og gagnleg úrræði í grunnskóla á svæðinu og einnig í önnur sveitarfélög. Starfsemi fer fram alla virka daga vikunnar og er notendum að kostnaðarlausu.

Vin, Rauði krossinn, Reykjavík
Vin er athvarf fyrir fólk með geðraskanir og rekið sem fræðslu- og batasetur. Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr endurinnlögnum á geðdeildir og efla þekkingu á málefnum fólks með geðfötlun. Lögð er áhersla á að virkja notendur til þátttöku í starfsemi athvarfsins og ákvarðanatöku og í boði eru ýmis námskeið og einnig einstaklingsmiðuð aðstoð. Vin er starfrækt alla virka daga og er aðgangur að athvarfinu með öllu gjaldfrjáls sem og öll þau námskeið, fundir eða önnur virkni og bataúrræði sem eru á dagskrá.

Styrktarfélag Klúbbsins Geysis, Reykjavík
Klúbburinn Geysir er atvinnumiðað endurhæfingarúrræði fyrir fólk með geðraskanir. Grundvallarmarkmið klúbbsins er að virkja félaga hans til starfa og koma þeim út í meiri samfélagsvirkni. Félagar vinna á tveim deildum samkvæmt skipulögðum vinnudegi og bera félagar og starfsfólk sameiginlega ábyrgð á rekstrinum og ákveða í sameiningu hvaða störf þarf að inna af hendi. Klúbburinn Geysir er gjaldfrjálst meðferðarúrræði. Mæting er frjáls og ekki háð neinum takmörkunum utan þess sem félagar eru tilbúnir að undirgangast.

Hertex, Reykjavík
Hertex er fata - og nytjamarkaðskeðja Hjálpræðishersins. Hertex hefur tekið á móti fjölda sjálfboðaliða sem hafa af ýmsum ástæðum ekki getað verið á vinnumarkaði. Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun með því að bjóða uppá einstaklingsmiðuð verkefni og samverustundir. Starfsemi Hertex er opið og gjaldfrjálst og aðgengi er sex daga vikunnar. Hjá þeim er fjölbreyttur hópur einstaklinga sem vinna frá nokkrum klukkustundum á dag til nokkurra klukkustunda á viku. Gerðir eru samningar við þátttakendur um tímamagn og skuldbindingu sem fylgt er eftir með viðtölum. Stefnt er að því að bjóða uppá heilsueflandi og sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir sjálfboðaliðana.

Hlutverkasetur, Reykjavík
Hlutverkasetur er virknimiðstöð og er öllum opinn og taka einstaklingar þátt á eigin forsendum. Staðurinn býður upp á umgjörð, hvatningu og stuðning fyrir þá sem vilja viðhalda virkni á markvissan hátt eða auka lífsgæðin. Hlutverkasetur veitir opið og gjaldfrjálst aðgengi að þjónustu fyrir einstaklinga alla virka daga vikunnar sem glíma við heilsubrest sem hefur áhrif á atvinnuþátttöku þeirra.

Bataskóli Íslands, Reykjavík
Bataskóli Íslands er skólinn ætlaður fólki, 18 ára og eldra, sem glímt hefur við geðrænar áskoranir í lífi sínu. Markmið skólans er að veita fræðslu um geðraskanir, gefa góð ráð varðandi geðheilsu, bæta lífsgæði nemenda og auka virkni. Bataskólinn er nemendum að kostnaðarlausu, engin skólagjöld eru í skólanum og fá nemendur úthlutað námsgögnum.