Viðtal við Jóhann Áskell Gunnarsson, sem birtist í ársriti VIRK 2024.
„Ég fór illa út úr kóvidsmiti fyrstu bylgju þeirrar kórónuveiru, ég hef verið að glíma við eftirstöðvarnar síðan og VIRK hefur reynst mér afar vel í þeirri baráttu,“ segir Jóhann Áskell Gunnarsson sem búsettur er í Bolungarvík og vinnur þar sem sundlaugarvörður.
„Þann 23. mars 2020 helltust yfir mig slæm veikindi. Ég var heima fyrstu eina og hálfu vikuna en svo varð ég svo veikur að ég var fluttur með sjúkraflugi fyrst til Akureyrar og svo til Reykjavíkur. Veðrið var svo vont að það var ekki hægt lenda í Reykjavík fyrr en eftir tvo sólarhringa. Ég var svæfður á Ísafirði fyrir ferðalagið og settur í öndunarvél á Akureyri.
Ég man ekkert eftir þessu, vissi ekki af mér, mundi bara eftir mér á Ísafirði og svo þegar ég var vaknaður á Landspítalanum í Reykjavík. Ég var í öndunarvél í átta og hálfan sólarhring. Ég var rosalega mikið veikur og á tímabili var mér varla hugað líf,“ segir Jóhann Áskell.
„Fyrstu nóttina bjuggust aðstandendur mínir alveg eins við símhringingu þar sem tilkynnt yrði um lát mitt en það hafðist að halda mér á lífi. En tvísýnt var það, einkum fyrstu nóttina eftir að ég kom suður. Ég veit ekki hvar ég smitaðist, það var hópsmit fyrir vestan og ég hef smitast af einhverjum í þeim stóra hópi.“
Hvað tók við eftir að þú varst kominn yfir það versta?
„Ég var um fimm vikur, fyrst á spítalanum og síðan í tíu daga í endurhæfingu á Reykja-lundi. Þar var verið að hjálpa manni að komast á fætur aftur. Það gekk ágætlega en tók á. Ég var dálítinn tíma að ná því að bjarga mér sjálfur, geta klætt mig og komist í sturtu.
Þessi veikindi tóku gríðarlega á andlega sem líkamlega og ekki síður á fjölskyldu mína sem á tímabili beið milli vonar og ótta um hvernig þetta færi. Ég á konu og fimm börn. Áhyggjurnar hjá mér komu ekki fyrr en eftir á. Ég gerði mér í fyrstu ekki almennilega grein fyrir hve veikindi mín voru mikil. Svo á ég eitt barnabarn sem fæddist í nóvember 2020 og annað á leiðinni. Ég fékk að vita þegar ég vaknaði upp á Landspítalanum að ég væri að verða afi, það lífgaði mikið upp á tilveruna á þessum erfiða tíma.“
Hvernig fór þetta með þig og atvinnu þína?
„Ég var óvinnufær í tvö ár. Ég var að vinna hjá Örnu, mjólkurfélaginu, þegar ég veiktist og gat ekki snúið aftur til þeirra starfa. Ég þoli ekki kuldann sem nauðsynlegur er í því vinnuumhverfi.
Í byrjun árs 2021 fór ég í endurhæfingu á Reykjalundi í sex vikur og eftir að ég kom heim sendi heimilislæknirinn minn beiðni fyrir mig til VIRK. Ég komst þar að um vorið 2021. Ég fór í viðtal við ráðgjafa VIRK á Vestfjörðum og þegar búið var að samþykkja umsókn mína fór ég í starfsendurhæfingu hjá VIRK. Það hófst með því að mæta í viðtal og þar var farið yfir það sem var í boði og hvað væri hægt að gera fyrir mig.
Ég fékk alla þjónustu hér fyrir vestan og þurfti ekkert að sækja suður, það fannst mér afskaplega gott.
Það var meiriháttar gott að komast inn í þjónustu hjá VIRK. Ég fór í göngutúra og sótti fyrirlestra og æfingar. Svo var ég líka á námskeiði í handmennt til þess að þjálfa fínhreyfingar handanna. Ég var rosalega máttfarinn og lítill bógur.
Svo komst ég inn hjá sjúkraþjálfara líka, það hjálpaði mikið. Ég fékk einnig sálfræðiþjónustu í gegnum VIRK, fyrst á Reykjalundi, það var óskaplega gott og svo fékk ég tíma hjá sálfræðingi sem var að vinna á vegum VIRK á Ísafirði. Það hjálpaði mikið.
Ég fékk alla þjónustu hér fyrir vestan og þurfti ekkert að sækja suður, það fannst mér afskaplega gott. Þá gat ég verið hjá fjölskyldunni. Mér þótti þó mjög gott að vera á Reykjalundi. Elstu strákarnir voru í skóla í Reykjavík og ég gat hitt þá um helgar. Það lyfti mér alveg helling upp.“
Hvenær fórstu að hugsa til endurhæfingar hvað vinnu snerti?
„Stefnan hjá mér var frá upphafi að komast inn á vinnumarkaðinn aftur og það lagði ég ríka áherslu á í samtali mínu við ráðgjafa VIRK. Ég var svo heppinn að mér bauðst starf í sundlauginni í Bolungarvík. Þar hóf ég störf 1. mars 2022, það vantaði þá einn mánuði upp á að ég hefði verið frá vinnu í tvö ár. Ég byrjaði í sjötíu prósent vinnu og hef verið í því starfshlutfalli síðan og ætla mér að vera það áfram. Þetta hentar mér ágætlega.“
Þú hefur sem sagt verið vel syndur?
„Já, ég get synt, ég stóðst allavega sundprófið fyrir ári síðan,“ segir Jóhann Áskell og hlær.
Höfðu þessi miklu veikindi mikil áhrif á líf þitt?
„Já, þau höfðu það. Ég hafði svo lítið þrek og þol eftir þau. Ég fór þá leið að ræða um veikindi mín og afleiðingar þeirra og það hjálpaði mér mikið andlega. Ég lokaðist ekkert inni með mín mál. Fjölskylda mín var vissulega undir miklu álagi á þessu tímabili vegna veikinda minna, sérstaklega reyndi þetta á konuna mína. Hún stóð sig frábærlega í þessu öllu saman. Hún hjálpaði mér dyggilega í gegnum þetta. Hún fékk líka kóvid og öll börnin okkar um svipað leyti og ég veiktist en þau urðu ekki fárveik eins og ég.“
„Þjónusta VIRK skipti mig höfuðmáli, að geta hitt fólk og fengið andlega og líkamlega aðstoð.
Sástu eftir þínu fyrra starfi?
„Já, þetta var ágætis vinna en ég er líka í mjög góðu starfi núna. Það þýðir ekkert annað en horfa fram á við þegar svona atburðir verða.“
Hvað viltu segja um þjónustu VIRK?
„Það er ekki annað hægt en dásama það sem gert var fyrir mig þar. Það var allt gert fyrir mig sem mögulegt var. Bæði var haldið utan um starfsendurhæfinguna og alla pappírsvinnu sem henni fylgdi – hún var mikil.
Ég fékk endurhæfingarlífeyri. Fyrst fékk ég framlög úr sjúkrasjóði verkalýðsfélagsins sem ég á aðild að. Þá var ég í Verk Vest, verkalýðsfélagi Vestfirðinga. Núna er ég í Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur eftir að ég hóf störf í sundlauginni. Endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins fékk ég fljótlega eftir að réttindum mínum í Verk Vest lauk. Peningaáhyggjur mínar voru því ekki miklar, þetta hafðist allt saman.“
Hvernig er staðan hjá þér núna?
„Ég er enn að glíma við þreytu og þrekleysi og er óskaplega viðkvæmur fyrir öllum kvefpestum sérstaklega. Ég er til dæmis búinn að vera undanfarna tíu daga með slæmt kvef og er lengi að jafna mig. Ég fann greinilega hvað þrekið minnkar hjá mér við slík veikindi. Maður fer þá óneitanlega í „bakkgír“ um tíma. En það er ekki annað í boði en halda áfram. Veikindin höfðu þó ekki áhrif á búsetu fjölskyldunnar, við höfum búið í Bolungarvík síðan við fluttum vestur í ágúst 2013. Við eru bæði hjónin ættuð af Ströndum. Það er fínt að búa hér fyrir vestan, maður hefur allt til alls hér.“
Fékkstu eftirfylgni eftir að þú laukst formlegri þjónustu hjá VIRK?
„Já, ráðgjafar VIRK fylgdust með mér í nokkra mánuði eftir að starfsendurhæfingu lauk, ég skrapp í kaffi til þeirra og ræddi málin, hvernig mér leið og hvernig gengi. Það var mér alltaf opið að kíkja inn í spjall.“
Hvaða úrræði reyndist þér best?
„Þjónusta VIRK skipti mig höfuðmáli, að geta hitt fólk og fengið andlega og líkamlega aðstoð. Reykjalundur var einnig mjög mikilvægur, auk endurhæfingarinnar hitti maður þar fólk sem svipað var ástatt fyrir og gat þá rætt um sameiginlega glímu við afleiðingar af slæmum kovidveikindum. Bæði þar og hjá VIRK eignaðist maður góða vini sem ég hef samband við enn í dag. Úrræðin sem komu mér best voru gönguferðir úti og námskeiðin sem ég sótti á vegum VIRK. Einnig vinna sem ég stundaði sem úrræði hjá VIRK, til dæmis í gróðurhúsi. Sálfræðiþjónustan reyndist mér líka vel.“
Hvernig er svo sjálfsmyndin þín núna?
„Ég er fimmtíu og níu ára núna en óneitanlega gæti heilsan verið betri. Ég var ágætlega á mig kominn fyrir veikindin og það er satt að segja mesta furða hvað ég er. Ég er viðkvæmur og þreklítill en andlega heilsan er bara nokkuð góð. Reynsla mín af VIRK er frábær. Það var meiriháttar að komast þar inn. Hjá VIRK starfar fagfólk sem reyndist mér mjög vel.“
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Ágúst Atlason
Viðtal úr ársriti VIRK 2024.