Virk í 10 ár

Í ár eru 10 ár frá stofnun VIRK, en í kjarasamningum í febrúar árið 2008 sömdu ASÍ og SA um stofnun endurhæfingarsjóðs í framhaldi af umræðum um nokkurra ára skeið um nýtt fyrirkomulag starfsendurhæfingar.

Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK, var fyrsti fastráðni starfsmaður sjóðsins en hún hóf störf 15. ágúst 2008. „Þá var búið að skipa í stjórn, skipulagsskrá lá fyrir og Soffía Vernharðsdóttir hafði tekið að sér að sjá um praktísk mál er varða bókhald og fjármuni fyrstu vikurnar. Í byrjun árs 2009 komu síðan opinberir atvinnurekendur og stéttarfélög opinberra starfsmanna að VIRK sem stofnaðilar og varð VIRK þá fyrsta stofnunin sem allir helstu aðilar íslensks vinnumarkaðar stóðu saman að. Samstarf allra þessara ólíku aðila innan VIRK hefur alltaf verið með miklum ágætum og innan stjórnar VIRK hefur aldrei þurft að koma til atkvæðagreiðslu til að skera úr um mismunandi sjónarmið heldur hafa menn ætíð náð sátt um þær ákvarðanir sem teknar hafa verið.“

Vigdís segir að í upphafi var starfið eðlilega lítt mótað. „Til staðar voru ákvæði í kjarasamningum aðila á vinnumarkaði og upphafleg skipulagsskrá VIRK sem tilgreindi í tveimur greinum helstu markmið og hlutverk. Ég fékk lánaða eina skrifstofu hjá ASÍ, keypti fartölvu fyrsta daginn í starfi og hóf að skipuleggja starfið.“

Hún segir að hún hafi þá þegar verið farin að tala við fagfólk í leit að fyrstu starfsmönnunum auk þess að lesa sér til um starfsendurhæfingu og framkvæmd hennar í löndunum í kringum okkur. Starfið var hins vegar alveg ómótað sem og öll praktísk mál er varða uppbyggingu á nýrri stofnun með mikið og stórt hlutverk. 

Lítil tilraunaverkefni

„Fyrstu starfsmennirnir komu til starfa haustið 2008 og í upphafi árs 2009 fórum við af stað með lítil tilraunaverkefni í samstarfi við nokkur stéttarfélög , þar á meðal Einingu-Iðju, þar sem fyrstu ráðgjafarnir fóru að taka á móti einstaklingum í þjónustu. Á árinu 2009 bættust síðan í hópinn fleiri ráðgjafar og þá var farið í það að semja formlega við stéttarfélög eða samtök stéttarfélaga um allt land um þjónustu sérhæfðra ráðgjafa í starfsendurhæfingu.

Í upphafi var farin sú leið að hefja starfsemi fljótt jafnvel þó ýmsir innviðir væru ekki fullbúnir eða verkferlar fullmótaðir. Ástæðan var margþætt. Það er ómögulegt að sjá alla hluti fyrir í upphafi og mikilvægt er að fá tækifæri til að prófa sig áfram og læra af reynslu. Einnig skipti það máli að ég var að stíga fyrstu skrefin með VIRK á sama tíma og efnahagshrunið varð á árinu 2008. Aðstæður kölluðu því á hraða uppbyggingu því ljóst var að þær þrengingar sem samfélagið gekk í gegnum á þessum tíma myndu kalla á aukna þjónustu á sviði starfsendurhæfingar og sú varð líka raunin.

Fljótlega varð ljóst að mikil þörf var fyrir þessa þjónustu og við höfum þessi fyrstu 10 ár oftast verið í stöðugu kapphlaupi við að ná að anna eftirspurn eftir þjónustunni á sama tíma og við erum að móta starfið og skilgreina hlutverk VIRK innan velferðarkerfisins. Sem dæmi um þetta má nefna að heildarfjöldi einstaklinga í þjónustu jókst um 70% milli áranna 2010 og 2013 og á árinu 2013 þá komu um 33% fleiri nýir einstaklingar í þjónustu en árið á undan. Undanfarin ár hefur áfram verið mikill vöxtur í þjónustu VIRK og fjölgaði þjónustuþegum talsvert milli áranna 2016 og 2017 og í dag er ekkert lát á eftirspurn eftir þjónustu VIRK og ennþá er unnið að því að þróa starfsemina þannig að unnt sé að ráða betur við eftirspurnina.“ 

Mat á árangri

Vigdís segir að það sé flókið að meta árangur starfsendurhæfingar því erfitt er að segja til um afdrif einstaklinganna ef þjónustunnar hefði ekki notið við. „Besta leiðin væri ef unnt væri að bera saman tvo alveg sambærilega hópa þar sem annar fengi þjónustu en hinn ekki. Þessa leið er ekki mögulegt að fara þegar árangur VIRK er metinn því VIRK ber lögum samkvæmt að veita þjónustu til allra um allt land út frá tilteknum faglegum skilyrðum.“

VIRK hefur frá upphafi lagt áherslu á að safna saman gögnum sem geta orðið grunnur að ýmis konar mati á árangri starfseminnar. Dæmi um það er skrásetning á framfærslustöðu og stöðu á vinnumarkaði í upphafi og lok þjónustu, þjónustukannanir og ýmis konar mælingar á líðan einstaklinga í þjónustu. Einnig hefur á undanförnum árum verið skipulega hringt í einstaklinga sem hafa lokið þjónustu og þeir spurðir út í framfærslustöðu sína í allt að þrjú ár eftir lok þjónustu. VIRK hefur einnig fengið Talnakönnun sem utanaðkomandi aðila til að leggja mat á árangur VIRK með tryggingastærðfræðilegum aðferðum. „Óhætt er að segja að niðurstaðan sé í heild sinni mjög jákvæð. Allar mælingar sem gerðar hafa verið á árangri VIRK sýna mjög jákvæða niðurstöðu hvort heldur sem litið er á líðan og lífsgæði einstaklinganna eða fjárhagslegan ávinning fyrir einstaklinga og samfélag,“ segir Vigdís. 

Breytilegar áskoranir og næstu skref

Vigdís segir að margt hafi áunnist á þeim 10 árum sem VIRK hefur starfað. „Það sem mestu máli skiptir er að á sjötta þúsund einstaklingar hafa náð aukinni og oft fullri vinnugetu með aðstoð frá VIRK og flestir af þeim 7.600 einstaklingum sem hafa lokið þjónustu VIRK hafa auk þess náð að bæta heilsu og lífsgæði sín verulega. Þetta skilar sér ekki bara til einstaklinganna sjálfra heldur einnig til fjölskyldu og náinna vina þeirra og til samfélagsins t.d. í formi aukins vinnuafls og meiri framleiðni. Auk þess er líklegt að aukin vinnugeta og betri líðan dragi úr lyfjanotkun og þörf fyrir ýmsa aðra þjónustu innan velferðarkerfisins.“

Starfsemi VIRK hefur einnig orðið til þess að bæði reynsla og rannsóknir á sviði starfsendurhæfingar hér á landi hafa eflst og fleiri og fleiri fagaðilar hafa getað þróað ýmis úrræði og þjónustu sem hafa aukið getu og lífsgæði einstaklinga um allt land. Hjá VIRK hafa auk þess orðið til mikilvæg gögn og þýðingarmikil þekking sem hægt er að nýta til að bæta þjónustu velferðarkerfisins í heild sinni um allt land. „Til framtíðar þá er mikilvægt að horfa til þess sem hefur áunnist en það er líka jafn mikilvægt að nálgast verkefnin með mikilli auðmýkt og hafa það ávallt í huga að ein rétt leið verður aldrei til. Starfsendurhæfing snýst um að hafa áhrif á einstaklinga í síbreytilegu umhverfi og í samfélagi sem verður aldrei eins frá degi til dags. Besta leiðin í dag er því ekki endilega sú besta á morgun auk þess sem viðfangsefnið er flókið og því getur verið erfitt að mæla árangur nema yfir langan tíma og með aðferðum sem munu alltaf byggja að hluta til á forsendum sem aldrei verða óumdeildar. Starfsendurhæfing krefst stöðugrar þróunar og viðleitni til að skilja betur þarfir einstaklinga og samfélagsins í heild sinni. Því er mikilvægt að það viðhorf sé ávallt til staðar innan VIRK að við getum alltaf gert betur. Við þurfum ávallt að vera tilbúin til að snúa speglinum við og vera gagnrýnin á okkur sjálf en á uppbyggilegan máta. Við þurfum að hafa kjark og þor bæði til að fara nýjar leiðir og til að bakka út úr þeim leiðum sem ekki gáfust vel. Aðeins á þann hátt getum við lært og þróast til gagns fyrir samfélagið og okkur sjálf.“ 

Ráðgjafar á félagssvæðinu

Á Eyjafjarðarsvæðinu starfa núna fjórir ráðgjafar hjá VIRK, Elsa sem jafnframt er verkefnastjóri á svæðinu, Helga Þyri, Nicole og Svana. Þær eru starfmenn Einingar-Iðju, en starfa fyrir öll stéttarfélög á svæðinu. Nicole er með fasta viðveru á skrifstofu Einingar-Iðju á Dalvík á þriðjudögum og Svana á skrifstofu Einingar-Iðju í Fjallabyggð á miðvikudögum.

Elsa er búin að vera með frá byrjun, en í upphafi fór VIRK af stað með tilraunaverkefni í samvinnu við sjúkrasjóði þriggja stéttarfélaga og var Eining-Iðja eitt þeirra og tók Elsa þátt í því.