VIRK - 11% fleiri nýir í þjónustu og útskrifaðir 2020

Mynd af heimasíðu VIRK
Mynd af heimasíðu VIRK

Enn eitt árið í röð var aukning á nýjum í þjónustu hjá VIRK sem og þeim sem luku starfsendurhæfingu.

2.330 einstaklingar hófu starfsendurhæfingu á vegum VIRK á árinu 2020, 11,4% fleiri en árið á undan. 1.595, eða 11,7%, fleiri útskrifuðust frá VIRK 2020 en árið 2019. 2.611 einstaklingar voru í starfsendurhæfingarþjónustu á vegum VIRK um áramótin, um það bil jafnmargir og um síðustu áramót.

Um áramótin höfðu alls 19.358 hafið starfsendurhæfingu hjá VIRK frá því að fyrsti einstaklingurinn hóf starfsendurhæfingu á vegum starfsendurhæfingarsjóðsins haustið 2009.

11.710 einstaklingar hafa lokið þjónustu, útskrifast, frá VIRK frá upphafi og 76% þeirra eru virkir á vinnumarkaði við útskrift, eru með vinnugetu og fara annað hvort beint í launað starf, virka atvinnuleit eða lánshæft nám.

Árangur og ávinningur af starfsemi VIRK - fjárhagslegur og samfélagslegur - er mjög mikill þar sem starfsemin hefur á undanförnum áratug skilað þúsundum einstaklinga í virka þátttöku á vinnumarkaði.

Þennan árangur hafa utanaðkomandi aðilar staðfest, niðurstöður Talnakönnunar sýna t.d. að ávinningurinn af starfsemi VIRK á árinu 2019 nam 20,5 miljörðum og að reiknaður meðalsparnaður samfélagsins á hvern útskrifaðan einstakling frá VIRK nam 14,4 milljónum það ár.

Þá sýna þjónustukannanir VIRK að þátttakendur eru undantekningalítið mjög ánægðir með þjónustuna og telja hana auka verulega bæði lífsgæði sín og vinnugetu.

Sjá nánar upplýsingar um sögu VIRK, árangur og starfsemi.

VIRK ráðgjafar í Eyjafirði

Á Eyjafjarðarsvæðinu starfa fjórir ráðgjafar hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði, þær, Helga Þyri sem jafnframt er verkefnastjóri á svæðinu, Kristín, Nicole og Svana. Þær eru starfmenn Einingar-Iðju, en starfa fyrir öll stéttarfélög á svæðinu. Þær eru með aðsetur á skrifstofu félagsins á 2. hæð í Alþýðuhúsinu á Akureyri.

  • Nicole er með fasta viðveru á skrifstofu Einingar-Iðju á Dalvík á þriðjudögum. 
  • Svana er með fasta viðveru á skrifstofu Einingar-Iðju í Fjallabyggð á miðvikudögum 

Snæbjörn Sigurðsson starfar sem Atvinnulífstengill hjá VIRK. Hann er starfmaður FVSA, en starfar fyrir öll stéttarfélög á svæðinu. Hann er með aðsetur á skrifstofu FVSA á 3. hæð í Alþýðuhúsinu á Akureyri. Hann er með síma 455 1058 og netfangið snaebjorn@fvsa.is