Vinnutímastytting

Eining-Iðja vill vekja athygli félagsmanna sína á að þann 1. maí nk. mun vinnuvika starfsfólks á opinberum markaði, í fullu starfi, í vaktavinnu styttast úr 40 klukkustundum í 36 á viku. Frekari stytting í allt að 32 klukkustundir er möguleg og grundvallast á vægi vinnuskyldustunda.

Launamyndun vaktavinnufólks breytist og mun taka meira mið af vaktabyrði en áður. Vaktaálagsflokkum fjölgar og greiddur er sérstakur vaktahvati sem tekur mið af fjölda og fjölbreytileika vakta.

Sjá nánar á vefnum betrivinnutimi.is

 

Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, minntist á vinnutímastyttingu þegar hann flutti skýrslu stjórnar á aðalfundi Einingar-Iðju í gær. 

"Á starfsárinu var unnið að því að koma í framkvæmd vinnutímastyttingu dagvinnufólks hjá ríki og sveitarfélögum sem tók gildi um síðustu áramót. Skipaður starfshópur allra aðila á opinbera markaðnum og hefur hann skipulagt þetta og skorið úr þeim vandamálum er upp hafa komið. Sannast sagna hefur þetta gengið frekar brösuglega en ríkið hefur þó verið mun jákvæðara. Bæði var unnið að því að allir færu niður í 36 tíma vinnuviku og farið væri betur eftir þeim ferlum sem settir voru upp. Mörg sveitarfélögin hafa verið eins og „snúið roð í hund“ og reynt að setja sínar eigin reglur. Reynt hefur verið að fá fólk til að taka aðeins sínar samningsbundnu  13 mínútur í styttingu á dag þannig að vinnuvikan verði tæpar 39 klukkustundir og menn haldi kaffitímunum óskertum. Einnig að starfsfólk verði að taka styttinguna út vikulega. Í samkomulaginu segir að þetta eigi að vera í samráði við starfsfólk.

Ef menn skoða hvaða dagvinnumenn fóru niður í 36 tíma vinnuviku þá sýnist mér að það séu yfirmenn og skrifstofufólk en ekki hinn almenni starfsmaður á gólfinu. Vinnutímastyttingin  hefur þannig ekki gengið eins og vonast var til þegar samið var um hana. Mín skoðun er að þessi stefna og ósveigjanleiki sem sveitarfélögin sýna starfsfólki sínu muni koma beint framan í þau er líður á árið.

Þann 1. maí nk. mun vinnuvikan hjá vaktavinnufólki styttast niður í 36 tíma og með því falla á brott allir reglulegir neyslutímar. Fólk á þó áfram rétt á að fá sér kaffi og mat án þess að eiga fastan tíma til þess á dag. Þessi breyting hefur mikil áhrif á fjöldann allan af okkar félagsfólki hjá ríki og sveitarfélögum. Um 90% vaktavinnumanna hjá þessum aðilum  eru í hlutastarfi. Flestir þeirra  halda áfram að vinna sama tímafjölda og áður en bæta við sig % sem nemur allt að 10% hærra starfshlutfalli. Þó er nokkuð um að fólk sem vinnur einsleitar vaktir fái minna út úr þessu en það hafði áður. Því er mikilvægt að vel sé unnið í vaktaskrám á hverjum vinnustað til að sú staða komi ekki upp.

Þessar breytingar á vinnutíma eru þær mestu frá 1974 en þá fór vinnuvikan úr 44 stundum niður í 40 stundir og hefur verið þannig þar til nú.

Á almenna markaðnum var líka samið um vinnutímastyttingu. Þar voru settar upp tillögur til að sjá hvort áhugi væri fyrir hendi.  Ef menn vildu stytta vinnuvikuna þá var byrjað á að selja kaffitímana. Hingað til hefur lítill vilji verið til þess. Mjög fáir staðir eru því komnir með styttinguna almenna markaðnum og  verður örugglega ekki víðtæk fyrr en eftir næstu samninga. Þar sem þarf að laga ýmis ákvæði og færa þau til samræmis við opinberamarkaðinn. Það er jú ekki nema rúmt ár í að þeir samningar verði lausir.

Vinnan við almennu samningana og samningar hjá ríki og sveitarfélögum hafa ruglað marga á almennum vinnumarkaði og eru ófá símtölin sem við höfum fengið þar sem félagsmenn halda að það sé verið að hlunnfara þá um styttinguna. Mjög margir  atvinnurekendur haft samband við okkur til að kanna hvort þeir séu að brjóta á  sínu starfsfólki þar sem þeir hafa ekki gert neitt í vinnutímastyttingarmálum."