Vinnum saman gegn brotum á vinnumarkaði

Eining-Iðja fagnar því sérstaklega að umræða um jafnaðarkaup og önnur kjarasamningsbrot hafi verið áberandi í sumar og vill þakka þeim fjölmörgu sem hafa tekið þátt í þeirri umræðu. Eining-Iðja hefur í mörg ár frætt ungt fólk innan skólakerfisins um réttindi sín og skyldur á vinnumarkaði auk þess að vera með auglýsingaherferð á sumrin í staðarblöðum til að vekja athygli á hugsanlegum kjarasamningsbrotum. Það að auki hefur Starfsgreinasambandið rekið herferðina „þekkir þú rétt þinn“ sem sérstaklega er beint að ungu fólki í tilfallandi störfum. Rauði þráðurinn er að hvetja fólk til að hafa samband við félagið sitt ef það telur á sér brotið. Umræðan í sumar hefur skilað sér í margföldun þeirra mála sem hafa komið inn á borð Einingar-Iðju og er það gott. Umræðan hefur því skilað árangri um allt land, ekki síst á Eyjafjarðarsvæðinu.

Flestir þeirra sem leita til Einingar-Iðju hafa náð fram leiðréttingu á sínum launum sjálfir með stuðningi félagsins en einnig er félagið með samning við lögfræðinga ef til slíks kemur. Forsenda fyrir því að félagið geti beitt sér er hins vegar að fólk viti þegar á því sé brotið og að það hafi samband við stéttarfélagið sitt og upplýsi það um málið. Á þessu ári hafa komið um 100 stærri mál til félagsins og eru þá ekki taldar með fyrirspurnir eða einfaldari mál sem afgreidd eru fljótt og örugglega. Um 80% þessara mála tengjast veitinga- og ferðaþjónustugeiranum. Að auki má bæta við að Eining–Iðja tekur við um 75 símtölum á hverjum degi.

Í störfum Einingar-Iðju er sérstaklega passað uppá að starfsfólk komi ekki nálægt málum sem það tengist persónulega. Slíkt ber sérstaklega að passa uppá í samfélögum þar sem nálægð er mikil og geta verið vináttu- eða fjölskyldubönd. Þess vegna eru þrír einstaklingar sem sinna þessum málum sérstaklega á skrifstofunni.

Kjarasamningsbrot eru alvarleg og sérstaklega er það átakanlegt þegar ungt fólk lendir í slíku þegar það stígur sín fyrstu spor á vinnumarkaðnum. Eining-Iðja er ávallt reiðubúið til að liðsinna ungu fólki eins og öðrum félagsmönnum en félagið fer aldrei lengra með mál en hver einstaklingur leyfir, annað væri brot á trúnaði á milli félagsins og einstaklingsins.

Aðalskrifstofa Einingar–Iðju er í Alþýðuhúsinu, Skipagötu 14 á Akureyri en félagið er jafnframt með skrifstofur á Dalvík og á Siglufirði. Síminn er 460 3600 og netfang þar sem hægt er að senda fyrirspurnir og athugasemdir er bjorn@ein.is og ein@ein.is. Félagið hvetur fólk til að hafa samband með fyrirspurnir, athugasemdir og ábendingar.

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju