Viljayfirlýsing undirrituð

Aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar stjórnvalda undirrituðu í gær sameiginlega viljayfirlýsingu um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, undirritaði viljayfirlýsinguna fyrir hönd Alþýðusambandsins.

Fundur Vinnueftirlitsins, stjórnar Vinnueftirlitsins og Velferðarráðuneytisins fór fram á Grand hótel í morgun og bar yfirskriftina - Áreitni á vinnustöðum, NEI TAKK!. Fundurinn var haldinn til að vekja athygli á mikilvægi þess að efla forvarnir á sviði vinnuverndar með sérstaka áherslu á einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustað.

Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér. 

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, var einn af frummælendum á fundinum og má lesa ávarp hans hér að neðan. 

Ágætu fundarmenn.

Ég vil þakka stjórn Vinnueftirlitsins fyrir þetta frumkvæði að efna til þessa fundar um áreitni á vinnustöðum þar sem við sameiginlega getum sagt NEI TAKK! Áreitni á vinnustöðum í hvaða formi sem er er óásættanleg og enginn launamaður á að þurfa þola það að verða fyrir áreitni við að stunda vinnu sína.

Á undanförnum mánuðum höfum við fylgst með samstöðuvakningu kvenna um allan heim undir yfirskriftinni ,,#metoo‘‘ þar sem konur vekja athygli á þeirri kynferðislegu áreitni og misnotkun sem þær verða fyrir á vinnumarkaði og í samfélaginu. Ég hef sagt það áður og vil endurtaka það hér að það er ekki hægt annað en dást að þessu framtaki og þeirri einurð og mikla kjarki sem að baki svona átaki liggur, samhliða því að lýsa fullum stuðningi við markmið þessa átaks – að konur og karlar geti fengið að sinna störfum sínum án þess að verða fyrir misnotkun af þessu tagi eða hvaða tagi sem er.

Verkalýðshreyfingin hafnar allri mismunun og órétti

Við á vettvangi ASÍ höfum í tilefni þessa átaks ítrekað tekið umræðu á vettvangi miðstjórnar og sent frá okkur ályktanir til stuðnings þess. Jafnframt höfum við áréttað að verkalýðshreyfingin hafnar allri mismunun og órétti á vinnumarkaði og undirstrikað að sjálf tilvist hennar byggi á baráttunni gegn slíku órétti. Í því felst að verkalýðshreyfingin hafnar hvers konar mismunun á grundvelli kynferðis, þ.m.t. kynbundnum launamun, einelti og kynferðislegu ofbeldi á vinnustað.

Fyrir stuttu síðan fengu forystumenn heildarsamtaka launafólks áskorun frá lokuðum hópi kvenna í verkalýðshreyfingunni, sem deilt hafði sín í milli reynslu sinni af kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir í vinnunni og félagsstörfum innan verkalýðshreyfingarinnar. Að því tilefni áréttaði miðstjórn ASÍ stefnu sína í þessum málum og skuldbatt sig til þess að vinna gegn kynbundnu og kynferðislegri áreiti og ofbeldi á vinnustöðum og standa að víðtækum aðgerðum sem allar hafa það yfirlýsta markmið að vinna gegn þessari mismunun.

Könnun meðal iðnverkakvenna gerð árið 1987

Íslenskur vinnumarkaður er mjög vel skipulagður með yfir 90% launamanna í stéttarfélögum og þau eru skipulögð í mikilli nánd við okkar félagsmenn og eru með starfandi trúnaðarmenn úti á vinnustöðunum. Þess vegna er geta okkar hreyfingar til þess að vera í nánu sambandi og samráði við okkar félagsmenn mjög mikil. Við höfum meðvitað verið að byggja okkar félög upp þannig að þau geti veitt félagsmönnum mikla þjónustu, hvort sem það er vegna áfalla vegna atvinnumissis, starfs- og endurmenntunar eða veikinda og slysa eða þess vegna hvernig þeir geta hagað sumarleyfinu sínu. Við höfum líka verið að byggja upp þjónustu við okkar félagsmenn vegna veikinda og slysa í samstarfi við Virk starfsendurhæfingarsjóð. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við virkjum þessi kerfi okkar í tengslum við þetta viðfangsefni því við erum ekki að byrja á því núna að fjalla um þetta óréttlæti sem konur verða fyrir. ASÍ stóð fyrir því árið 1987 í samstarfi við Iðju, félag iðnverkafólks á Akureyri, að gera könnun meðal iðnverkakvenna um kynferðislega áreitni og þá kom í ljós að nánast allar höfðu frá slíkri reynslu að segja. Þegar ég var í Jafnréttisráði árið 1991 eða 1992 héldum við hádegisverðafund í tilefni af 8. mars þar sem kynferðisleg áreitni á vinnustöðum var umræðuefnið. Þetta er búið að vera umræðuefni á vinnumarkaði lengi og Vinnueftirlitið hefur haft forystu um að setja reglugerðir og reglur út frá því sjónarmiði að þetta er óásættanleg hegðun. En við eigum að gera meira, við eigum að virkja allt kerfið okkar bæði trúnaðarmenn og stéttarfélögin með því að setja skýrar verklagsreglur og leiðbeiningar til þeirra sem taka á móti þolendum slíkra áreitni. Það er ekki nóg að rannsaka síðan hið lögformlega brot og fylgja því eftir, það þarf líka að huga að stuðningi við þolendur. Þess vegna eigum við að tengja saman Vinnueftirlitið vegna forvarnastarfsins og Virk starfsendurhæfingarsjóð vegna eftirmeðferðarinnar og veita þolendum þá sálfélagslegu aðstoð sem er nauðsynleg, því við megum ekki láta blekkjast af því að meirihluti svarenda í könnun Gallup telji sig ekki hafa orðið fyrir varanlegum áhrifum. Veruleg hætta er á því að afleiðingarnar komi ekki fram fyrr en löngu síðar, jafnvel áratugum síðar.

Í gær var kynnt í miðstjórn ASÍ stefna og viðbragðsáætlun Alþýðusambands Íslands sem vinnustaðar vegna eineltis, ofbeldis, kynferðislegrar og kynbundinna áreitni.

Ennfremur hefur miðstjórn ASÍ hvatt aðildarsamtök sín og verkalýðshreyfinguna alla til að styðja með öllum ráðum einstaklinga sem stíga fram og hafna hvers konar einelti og ofbeldi á vinnustað. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að taka af mikilli alvöru og fullri ábyrgð á þessu ákalli og þessari áskorun sem konur um allan heim beina að okkur.

Því er sú viljayfirlýsing sem hér verður undirrituð á eftir er mikilvægur áfangi á þessari vegferð að uppræta þetta óréttlæti í eitt skiptið fyrir öll! 

Takk fyrir!

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ