Laugardaginn 10. febrúar sl. hélt félagið útgáfuhátíð í Menningarhúsinu HOFI í tilefni af útkomu bókarinnar „Til starfs og stórra sigra“ – Saga Einingar-Iðju 1906-2004. Í tilefni af útgáfu bókarinnar ákvað stjórn Einingar-Iðju að veita fjórum samtökum og stofnunum styrk frá félaginu. „Það er smá þakklætisvottur og viðurkenning fyrir þeirra mikla og góða starf. Þau hafa hvert á sinn hátt hjálpað mjög mörgum af þeim félagsmönnum okkar sem hafa átt í erfiðleikum. Það er ógerlegt að telja upp allt sem þessir aðilar hafa gert, en við vitum öll hversu miklu þau hafa áorkað með starfi sínu. Hver styrkur er að upphæð ein milljón króna. Samtökin eru: Aflið samtök gegn kynferðis- & heimilisofbeldi á Norðurlandi, Grófin geðverndarmiðstöð Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis og Endurhæfingardeild SAK á Kristnesi.“ sagði Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, við þetta tilefni.
Á myndinni eru, talið frá vinstri: Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju; Elín Björg Ragnarsdóttir, formaður Aflsins, samtaka gegn kynferðis- og heimilisofbeldi; Þórunn Anna Elíasdóttir, gjaldkeri Aflsins; Hlíf Guðmundsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis; Friðrik Einarsson, formaður stjórnar Grófarinnar, geðverndarmiðstöðvar; Ingvar Þóroddsson, forstöðulæknir Kristnesspítala og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands sem var sérstakur gestur hátíðarinnar. Mynd: Daníel Starrason