Í Vikudegi sem kom út í gær er m.a. ítarlegt viðtal við Björn Snæbjörnsson formann félagsins. Þar segir hann m.a.: „Þú þarft að vera tilbúinn í að gefa þig í öll verkefnin sem koma upp á borðið. Maður heyrir gjarnan utan frá sér að menn í minni stöðu geri nú ekki mikið annað en að sitja á rassinum allan daginn en það er langur vegur frá því. Við vinnum okkar vinnu í trúnaði og kyrrð og því erum við ekkert að láta mikið á því bera. Lykilatriði í þessari vinnu er trúnaður og við gerum ekkert í neinu nema einstaklingurinn biðji okkur um það.“
Hann segir landslagið í stéttarfélögunum hafa breyst og þá sérstaklega þegar kemur að vinnu í aðdraganda kjarasamninga. „Hér áður fyrr var ég stundum í 3-4 mánuði í Reykjavík í samningagerð og vakti hátt í þrjá sólarhringa eitt sinn. Í dag er þetta orðið miklu manneskjulegra, vinnan teygist kannski fram á nótt en er í engu líkingu við það sem var. En í samningagerð þá gerir maður ekki mikið annað. Hugurinn er við þetta allan tímann.“