Á heimasíðu ASÍ segir að í febrúar sl. gaf Emil B. Karlsson út skýrslu, styrkt af Byggðarannsóknasjóði sem ber heitið „Verslun í heimabyggð – greining á sóknarfærum dreifbýlisverslana“. Í skýrslunni er sameiginlegur rekstrarvandi dreifbýlisverslana greindur og tillögur settar fram fyrir stjórnvöld byggðamála og sveitastjórnir um æskilegar stuðningsaðgerðir. Rannsóknin byggir meðal annars á upplýsingum frá 22 litlum dreifbýlisverslunum um allt land og greiningu á reynslu þeirra. Þar kemur m.a. fram að helsti vandi dreifbýlisverslana felist í óhagkvæmum innkaupum, háum flutningskostnaði, samkeppni við lágvöruverðsverslanir og áhættufórn eigenda, þ.e. í einhverjum tilfellum hefur endurreisn verslunar verið með aðkomu íbúanna sjálfra og hugsjónastarfi þeirra, frekar en að vera rekin í hagnaðarskyni.
Eins og gefur að skilja er gríðarlega mikilvægt að halda úti verslun og þjónustu í brothættum byggðum en tilvist verslunar getur skipt sköpum um lífvænleika fámennra byggðalaga. Vítahringurinn er hins vegar sá að við fækkun íbúa þrengir að rekstrargrundvellinum. Þannig eru íbúar háðir því að hafa aðgengi að verslun en á sama tíma er verslunin háð því að íbúafjöldi nægi til að halda uppi rekstrinum.
Samkvæmt skýrsluhöfundi eiga verslanir sem starfræktar eru í minnstu byggðalögunum í mjög ójafnri samkeppni við stóru verslunarkeðjurnar á dagvörumarkaði hvað varðar innkaupsverð frá birgjum, sem leiðir til hærra vöruverðs til neytenda. Þetta leiðir til ójafnra skilyrða fyrir íbúa eftir búsetu og hvetur íbúa til þess að gera innkaup utan heimabyggðar þó óskir þeirra standi til þess að viðhalda verslun í heimabyggð.
Meðal helstu tillagna skýrsluhöfundar um aðgerðir til að efla rekstur dreifbýlisverslana er að koma á nánara samstarfi við stóru verslunarkeðjurnar með það fyrir augum að heimamenn í smærri byggðum reki sínar verslanir en hafi aðgang að innkaupum á sama eða svipuðu verði og lágvöruverðsverslanirnar. Þannig er reksturinn áfram í höndum eigenda verslunar í heimabyggð og verslunarkeðjan nýtur góðs af aukinni sölu. Þetta fyrirkomulag hefur verið viðhaft í nágrannalöndum okkar um langt skeið og hefur gefist vel.
Önnur tillaga miðar að því að dreifbýlisverslanir gætu sótt um opinberan fjárstuðning, annars vegar með veltutengdum styrkveitingum og hins vegar með niðurgreiðslu flutningskostnaðar með hliðsjón af umfangi vörukaupa og fjarlægð verslunar frá Reykjavík.
Einnig væri hægt að bjóða upp á sérsniðna ráðgjöf fyrir eigendur dreifbýlisverslana ásamt kynningum, fræðslu og bókhaldsþjónustu en kostnaður minnstu dreifbýlisverslananna við bókhald og uppgjörsmál er verulega íþyngjandi fyrir reksturinn.
Skýrslu Emils má nálgast með því að smella á hlekkinn.
Skýrslan byggir m.a. á upplýsingum og reynslu dreifbýlisverslana sem og á gögnum úr verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var á landsbyggðinni. Hér má nálgast verðkönnun ASÍ í stórmörkuðum um land allt og í minni verslunum á landsbyggðinni frá árinu 2020.
Og hér er önnur frétt um sömu verðkönnun.