Leikfélag Hörgdæla frumsýnir í kvöld leikritið Verksmiðjukrónikan eftir Stefaníu Elísabetu Hallbjörnsdóttur og Sögu Jónsdóttur. Vert er að benda félagsmönnum á að Einingar-Iðjufélagar fá miðann á kr. 2.500 í stað kr. 3.000. Það eina sem þarf að gera er að nefna að þeir séu félagsmenn þegar miðinn er keyptur.
Leikritið gerist á Akureyri um 1940. Verkafólk á verksmiðjunum stendur í verkfallsbaráttu, Bretar eru komnir og miklar breytingar verða í bænum. Karlmenn eru uggandi yfir þeim áhrifum sem hermenn hafa t.d. á ungu stúlkurnar. Bretaþvottur er ekki öllum að skapi.
Í tilkynningu kemur fram að um tuttugu leikarar taki þátt í sýningunni og að margar skemmtilegar og sérstakar persónur líti dagsins ljós. Leikritið byggir á ýmsum atburðum sem þær stöllur hafa lesið eða heyrt um en margt er fært í stílinn. Leikritið er ekki sagnfræðileg heimild. Sýnt er að Melum í Hörgársveit, leikstjóri er Saga Jónsdóttir.
Miðapantanir milli kl. 16 og 18 alla daga í síma 666 0170 og 666 0180.