Nú kl. 12 hófst verkfall félagsmanna sem starfa eftir kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, bæði eftir almenna samningnum og eins eftir samningi um veitinga-, gisti-, þjónustu- og greiðasölustaðir, afþreyingarfyrirtækja og hliðstæðrar starfsemi. Allir félagsmenn sem starfa eftir þessum tveimur samningum áttu þá að leggja niður störf. Þeir starfsmenn sem eru í öðrum stéttarfélögum en starfa innan félagssvæðisins í störfum sem samið er um í kjarasamningi SGS og SA eiga líka að vera í verkfalli. Þeir eru sannanlega að sinna störfum sem verkfallið nær yfir.
Verkfallsverðir verða á ferð á öllu félagssvæðinu, á Akureyri, í Fjallabyggð, á Dalvík, á Grenivík og í Hrísey a meðan verkfall stendur yfir, eins verða opnar verkfallsmiðstöðvar á skrifstofum félagsins. Eining-Iðja hvetur félagsmenn sem eru í verkfalli til að sýna samstöðu og mæta og einnig að taka þátt í verkfallsvörslu.
Þeir félagsmenn í stéttarfélögum sem vinna á öðrum félagssvæðum sem eru ekki í verkfalli leggja ekki niður störf. Verkfallið takmarkast af landfræðilegu svæði þeirra aðildarfélaga sem eru í verkfalli og þeim kjarasamningum sem verið er að semja um.
Þó að ferðaþjónustubændur séu í Bændasamtökunum þá er kjarasamningur SGS og Bændasamtakanna bara um starfsmenn sem vinna almenn landbúnaðarstörf á bændabýlum. Ferðaþjónusta bænda fellur undir ferðaþjónustusamninginn, starfsmenn þar taka laun samkvæmt honum og eru því í verkfalli.
Grunur um verkfallsbrot
Ef félagsmenn Einingar-Iðju verða varir við verkfallsbrot eru þeir
vinsamlegast beðnir um að hafa samband við einhverja skrifstofu félagsins í síma 460 3600. Einnig er hægt að hringja í Björn formann í
síma 894 0729 eða Önnu varaformann í síma 662 0176.